Lífið

Bolvíkingar elskast og fjölga sér

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pálína Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Ástarvikunnar, ásamt fjölskyldu sinni við setningu hátíðarinnar.
Pálína Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Ástarvikunnar, ásamt fjölskyldu sinni við setningu hátíðarinnar. Mynd/Bjarki Friðbergsson
„Þetta er níunda árið sem Ástarvikan fer fram, en hún var reyndar ekki haldin síðustu tvö ár,“ segir Pálína Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Ástarvikunnar. Bæjarhátíðinni hefur staðið alla vikuna og lýkur henni í dag. Markmið Ástarvikunnar er að fjölga íbúum bæjarins og eru ýmsir viðburðir skipulagðir til að kveikja ástarbálið hjá íbúum í bænum.

Stofnandi Ástarvikunnar er Soffía Vagnsdóttir og var hún fyrst haldin árið 2004.

Fyrsta afkvæmi Ástarvikunnar, Viktoría Anna Reimarsdóttir, kom í heiminn í maímánuði árið 2005. „Síðasta vor komu svo í heiminn tvö börn sem má rekja til ástarvikunnar, þannig að þetta gengur vel,“ bætir Pálína við.

Hver fjölskylda bæjarins fékk í hendurnar Ástarvikupoka frá Vélvirkjanum og þar var meðal annars að finna sjö miða, einn fyrir hvern dag vikunnar. Á hverjum miða voru kærleiksskilaboð sem eiga að hjálpa til við ýta undir kærleikann og ástina.

Ástarvikubörnin voru heiðruð á setningu Ástarvikunnar en setningin endaði með því að tendruð voru friðarkerti sem mynduðu stórt hjarta.

Alls kyns viðburðir hafa farið fram í vikunni eins og örnámskeið í spænsku og parakeppni í ýmsum líkamsræktargreinum. Þá eru framundan viðburðir líkt og bjórkynning, ástarvikusund og ástarvikubíó. „Lokahnykkurinn er svo ball sem fram fer í kvöld,“ bætir Pálína við að lokum.

Friðarkerti mynda hjarta við setningu Ástarvikunnar.Mynd/Bjarki Friðbergsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.