Innlent

Guðlaugur vill skilanefnd yfir Íbúðalánasjóð

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir nauðsynlegt sé að setja slitanefnd yfir Íbúðalánasjóð. Hann viðrar einnig hugmyndir um sameiningu sjóðsins við Landsbankann.

Setja þarf tug milljarða í Íbúðalánasjóð úr ríkissjóði til að halda sjóðnum gangandi að mati Guðlaugs Þórs sem vill setja skilanefnd yfir sjóðinn. Hann segir stöðu sjóðsins grafalvarlega.

„Nú þegar er búið að setja 40-50 milljarða í sjóðinn og að öllu óbreyttu þá þurfum við að halda áfram að setja tugir milljarða króna í sjóðinn eins og Fjármálaeftirlitið hefur bent með mjög ákveðnum hætti á. Þetta er raunveruleiki sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór.

„Það er svo blóðugt þegar við erum að reyna að færa fjármuni yfir í heilbrigðiskerfið að þá er það allt saman eins og krónur og aurar í samanburði við þær gríðarlegu háu upphæðir sem að munu að öllu óbreyttu streyma úr ríkissjóði og yfir í íbúðalánasjóð.“

Sameining Íbúðalánasjóðs er fýsilegur kostur að mati Guðlaugs Þórs. „Bara við það að sameina þá er búið að tryggja að ekki þurfi að setja fjármuni skattgreiðenda í Íbúðalánasjóðinn og svo myndi einnig nást augljós rekstrarsparnaður með því að setja saman tvo banka.“

Guðlaugur segir að málið sé til umræðu. Engan tíma megi þó missa og mikilvægt að fresta ekki vandanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×