Skoðun

Listamannalaun í áskrift

Lára Óskarsdóttir skrifar
Vörður Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík hefur staðið fyrir fundaherferð í Valhöll í haust. Þar stíga í pontu sérfræðingar um ákveðin málefni með það að markmiði að fræða áhugasama um sín sérsvið. Hinn 10. október síðastliðinn var umfjöllunarefnið menningarmál. Framsögumenn á fundinum voru Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við LHÍ, og Pjetur Stefánsson listamaður. Eftir þeirra ágætu framsögu áttu sér stað líflegar umræður, m.a. um listamannalaun.

Þar sem mér er málið hugleikið á vissan hátt fannst mér áhugavert að heyra álit manna sem þekkja vel til. Þannig vill til að faðir minn, fæddur 1924, var talinn efnilegur listamaður á sínum yngri árum. Hann valdi að stofna fjölskyldu og kom ekki til greina að leggja það á fjölskylduna að búa við svo bág kjör sem listamenn lifðu við á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Það hefur setið í mér að faðir minn, sem er látinn, hafi ekki látið drauminn rætast og fannst því áhugavert að heyra þá Guðmund Odd og Pjetur tjá sig um listamannalaun.

Þeir voru nokkuð samtaka í svörum sínum um að listamannalaun væru sjálfsögð en settu báðir spurningu við aðferðina sem notuð er við úthlutun. Það kom fram í máli þeirra að aðferðin skapar hættu á spillingu sé málið í höndum tengdra aðila. Sú skoðun kom einnig fram að listamannalaun ættu frekar að tryggja nýliðum rými til að fóta sig í sköpun sinni en að verða eins konar áskriftargjörningur til þroskaðra listamanna. Einnig kom fram að meira réttlæti væri í því að tengja umsóknir verkefnum eða sýn, eins og Guðmundur Oddur orðaði það, frekar en nöfnum listamanna.

Það er mikilvægt að styðja við menningu og listir en það er hægt með öðrum leiðum en að greiða út listamannalaun í því formi sem gert er í dag. Með því að steypa saman einkafjármagni við fjármagn frá ríki og borg mætti stofna óháðan úthlutunarsjóð. Mikilvægt væri í slíku fyrirkomulagi að skipa úthlutunarnefnd sem tengdist ekki listamönnunum sem fengju úthlutun. Einnig mætti fara aðrar leiðir, s.s. að greiða frekar af húsnæði eða annan fastan kostnað eins og rafmagn og hita.

Menning og listir eru hornsteinar samfélagins eins og móðurmálið og má aldrei líta á þessa þætti sem kostnað. „Að vera gift listamanni er eins og að vera gift happdrættismiða,“ eru eftirminnileg orð sem Guðmundur Oddur hafði eftir eiginkonu listamanns. Þennan happdrættismiða kaus pabbi minn ekki að kaupa og er ég honum þakklát fyrir. Jafnframt er ég sorgmædd yfir að hann náði ekki að verða hluti af arfinum en verkin hans bera vitni um að hann hafði hæfni til. Okkur ber skylda til að hlúa að upprennandi listamönnum. Við vitum aldrei hverjir þeirra verða hluti af dýrmætum menningararfi okkar í framtíðinni.




Skoðun

Sjá meira


×