Lífið

Risasköp það fyrsta sem blasir við

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona segir fátt jafn ofnotað, varnarlaust og útjaskað og sköpunarfæri kvenna.
Kristín Gunnlaugsdóttir myndlistarkona segir fátt jafn ofnotað, varnarlaust og útjaskað og sköpunarfæri kvenna. Fréttablaðið/Vilhelm
Kristín Gunnlaugsdóttir opnar sýninguna Sköpunarverk á föstudaginn í Listasafni Íslands. Kristín segir umfjöllunarefnið vera sköpunarkraftinn sem býr í mannlegri náttúru og innri heim konunnar.

„Þegar þú gengur inn á Listasafnið blasa við þér sköp formóðurinnar, fjögurra og hálfs metra löng, ómeðhöndluð af lýtalækningum,“ segir Kristín Gunnlaugsdóttir, myndlistarkona, en hún opnar sýninguna Sköpunarverk í Listasafni Íslands á föstudaginn næstkomandi.

„Það er fátt jafn ofnotað, varnarlaust, misnotað og útjaskað í gegnum tíðina eins og sköpunarfæri kvenna í veröld karlmanna gegnum tíðina,“ segir Kristín jafnframt.

Kristín fæst við raunveruleika og veröld kvenna og er óhrædd að nálgast andstæður eins og heilagleika og tabú tengd kynhvötinni.

„Ég er kona og geng því út frá veruleika kvenna og mér þykir mikilvægt að fjalla um og opna á þessi mál. Þetta er ekki nýtt í myndlist en brýnt í samtímanum að við göngumst við hlutunum eins og þeir eru.“ segir Kristín.

Sköpunarverk er sýning í tveimur sölum.

„Í öðrum salnum verða stór veggteppi þar sem ég sauma með ull í grófan striga, svo verða þarna lítil tréverk máluð samkvæmt gamalli hefð miðalda – en myndefnið er áfram það sama,“ segir Kristín.

„Í rauninni er umfjöllunarefni sýningarinnar bara lífið sjálft. Það má eldast, það má vera eins og maður er – án þess að þurfa að beygja sig undir staðalímyndir æskudýrkunar, fullkomnunaráráttu og endalausrar sjálfsgagnrýni,“ segir Kristín.

Í nóvember og desember verður Kristín með leiðsögn um sýninguna og á undan því verður sýnd heimildarmynd sem Guðbergur Davíðsson og Hákon Már Oddsson hafa gert um Kristínu og listheim hennar.

Myndin, sem sýnd verður í ríkissjónvarpinu í janúar, er ein af fjórum um íslenska myndlistamenn. Í tilefni sýningarinnar hefur Eyja gefið út veglega bók.

Sýningin Sköpunarverk stendur til 19. janúar 2014.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.