Innlent

Fleiri vilja klára stjórnarskrármál

Fjörutíu og fimm prósent landsmanna telja mikilvægt að stjórnarskrármálið verði klárað fyrir kosningar en þrjátíu og níu prósentum þykir málið ekki brýnt.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem framkvæmd var í lok síðustu viku. Spurt var hversu mikilvægt það sé að Alþingi ljúki málinu fyrir komandi kosningar.

Ef litið er til allra sem afstöðu tóku kemur í ljós að fjörutíu og fimm prósent aðspurðra segja málið mjög eða frekar mikilvægt. Fimmtán prósent hafa litla skoðun á málinu og þrjátíu og níu prósent segja málið frekar eða mjög lítilvægt. Rétt rúmur meirihluti kvenna leggur áherslu á málið en um fjörutíu prósent karla og litið er til búsetu fólks er áhuginn á niðurstöðu í málinu meiri hjái borgarbúum en hjá landsbyggðarfólki.

Áhuginn á málinu er misjafn eftir því hvaða flokka fólk segist ætla að kjósa. Sextíu og sjö prósent kjósenda Bjartrar framtíðar segja mikilvægt að málið verði klárað en þrjátíu og fjögur prósent framsóknarmanna eru þeirrar skoðunar. Áhuginn hjá Sjálfstæðismönnum er lítill, aðeins átján prósent þeirra vilja klára málið nú. Áhuginn hjá samfylkingarfólki er hinsvegar mun meiri, um sextíu prósent þeirra segja mjög eða frekar mikilvægt að málið verði klárað fyrir kosningar. Fimmtíu og níu prósent kjósenda VG eru einnig þeirrar skoðunnar. Og í hópi þeirra sem segjast óákveðnir þegar kemur að hvaða flokk eigi að kjósa eru fimmtíu og fjögur prósent á því að mikilvægt sé að Alþingi ljúki málinu strax.

Meirihluti kjósenda Bjartrar framtíðar telur mikilvægt að klára málið fyrir kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×