Sport

„Lyktin er eins og upp úr skónum hjá manni á tíunda degi á stórmóti“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fyrrverandi handknattleikskappinn Sigfús Sigurðsson hóf störf hjá Fiskikónginum á dögunum og hitti Arnar Björnsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2, kappann í versluninni þegar hann var að afgreiða gamlan handboltakappa, Jón H Karlsson.

Það fór greinilega vel á með þessum gömlu Valsmönnum.  Að minnsta kosti fór Jón klyfjaður nokkrum kílóum af skötu eftir viðskipti sín við Sigfús.

„Þetta syndir í sjónum, er það ekki allt sem maður þarf að vita um fisk,“ sagði Sigfús í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við erum að selja mikið af skötu núna fyrir Þorláksmessuna og svo erum við einnig að selja mikið af gamaldags saltfiski. Sjálfur er ég alinn upp á heimili þar sem var mikið um mat og mikið af fiski á boðstólnum svo ég þekki ágætlega til hér.“

Aðspurður hvort það væri ekki svipuð lykt af skötunni og úr handboltatöskunni í gamla daga svaraði Sigfús á þá leið: „Þetta er meira svona eins og lyktin upp úr skónum hjá manni á tíunda degi á stórmóti. Skatan kemur samt bara fyrr með jólin að mínu mati.“

Hér að ofan má sjá viðtalið við Sigfús í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×