Lífið

Eins og birtuvekjaraklukka

Ugla Egilsdóttir skrifar
Útgáfutónleikar á fyrstu plötu tónlistarkonunnar Öddu fara fram á Kex hostel annað kvöld. Platan heitir My Brain E.P.

„Flautuleikarinn á plötunni verður ekki á landinu til að spila á útgáfutónleikunum þannig að Sunna Ingólfsdóttir, systir mín, ætlar að syngja þverflautupartinn,“ segir Adda.

„Í einu laginu er hann hraður og flókinn og ég veit hreinlega ekki hvort hann er sönghæfur. Hann var upphaflega brandari af hálfu tréþverflautuleikarans Georgiu Brown sem kom hlæjandi út úr upptökustúdíóinu eftir að hafa spilað hann í gríni. Honum svipar til þjóðlagatónlistar og breytir laginu í eins konar þjóðlagarokk. Þetta lag heitir waking Up og er hugsað sem vögguvísa til að vakna við, til að koma manni þægilega fram úr rúminu í svartasta skammdeginu. Lagið byrjar mjúklega en ágerist. Þetta er svolítið eins og birtuvekjaraklukkan sem vekur mann hægt og rólega. Ég á einmitt svoleiðis.“

„Ég ætla að spila öll lögin á plötunni á tónleikunum og líka lög af komandi plötum.

Með mér á tónleikunum spila allir sem gerðu plötuna með mér, að Georgia Brown undanskilinni. Þetta eru Sunna Ingólfsdóttir söngkona, Kristín Þóra Haraldsdóttir víóluleikari, og Úlfhildur Eysteinsdóttir hljóðmaður.“

Vinkona Öddu, Eva Rún Snorradóttir, hitar upp fyrir Öddu með ljóðaupplestri. Hún ætlar að lesa upp ljóð úr bók sinni Heimsendir fylgir þér alla ævi. Tónleikarnir verða á Kex hostel klukkan 20.30 annað kvöld. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.