Innlent

Nóg að gera hjá Margréti Þórhildi í allan dag og kvöld

Heimir Már Pétursson skrifar
Margrét Þórhildur blaðar í bók Jóns Þ. Þórs og Guðjóns Friðrikssonar sem rekur sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands í 500 ár. Til vinstri við drottningu eru Jón og Guðjón og Ólafur Ragnar Grímsson forseti er  henni á hægri hönd.
Margrét Þórhildur blaðar í bók Jóns Þ. Þórs og Guðjóns Friðrikssonar sem rekur sögu Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands í 500 ár. Til vinstri við drottningu eru Jón og Guðjón og Ólafur Ragnar Grímsson forseti er henni á hægri hönd. mynd/gva
Það er í nógu að snúast hjá Margréti Þórhildi Danadrottningu í dag, sem tekur þátt í hátíðarhöldum vegna 350 ára fæðingarafmælis Árna Magnússonar handritasafnara.

Dagurinn byrjaði í þjóðmenningarhúsinu þar sem  Danadrottning tók þátt í hátíðlegri athöfn. Íslendingar eiga Árna Magnússyni að þakka hvað hefur varðveist af íslenskum fornhandritum en hann var atkvæðamikill um söfnun þeirra og upphafsmaður rannsókna á þeim.

Margréti Þórhildi var afhent fyrsta eintakið af tveggja binda verki Jóns Þ. Þórs og Guðjóns Friðrikssonar um sögu Kaupmannahafnar, höfuðstaðar Íslands í 500 ár. Að því loknu skoðaði hún handrit í Þjóðmenningarhúsinu með leiðsögn Guðrúnar Nordal, forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar.

Klukkan hálf tvö hefst svo athöfn í hátíðasal Háskóla Íslands þar sem háskólarektor Kristín Ingólfsdóttir tekur á móti drottningu. Þar flytur Annette Lassen fyrirlestur um Árna Magnússon og einnig flytja ræður Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Guðrún Nordal.

Eftir það mun Margrét drottning heimsækja Hörpu og skoða hana í fylgd Halldórs Guðmundssonar forstjóra Hörpu.

Klukkan fjögur verður drottningin viðstödd opnun sýningar í Gerðarsafni á Teiknibókinni íslensku; Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra opnar sýninguna en Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður safnsins fylgir drottningu um sýninguna og segir frá bókinni.

Klukkan hálf átta í kvöld hefst síðan hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu.

Hér sést Margrét Þórhildur meðal annars skoða Flateyjarbók sem var meðal fyrstu handritina sem danir afhentu Íslendingum til varðveislu á sínum tíma.
Drottningin þykir alþýðleg í fasi. Eftir 41 ár sem drottning kann hún þá kúnst að láta öllum líða vel í návist hennar.
Margrét Þórhildur sýndi gömlum ljósmyndum úr Þjóðmenningarhúsinu áhuga.
Guðrún Nordal segir Danadrottningu frá handritum á sýningu í Þjóðmenningarhúsinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×