Matur

Gómsæt brauðterta

Ég bjó til brauðtertu fyrir eins árs afmæli sonar míns.  Þegar maður er svona ungur þá er ekki í boði að háma í sig súkkulaðiköku þannig að ég ákvað að gera köku sem hann gæti fengið smá smakk af.

Í þessari uppskrift maukaði ég saman reyktum laxi og sýrðan rjóma, að sjálfsögðu heimagerðum sýrðum rjóma.  Maður smyr svo rjómaosti utan á brauðtertuna, en rjómaostur og reyktur lax passa svo vel saman.

Uppskriftin kemur upphaflega frá tímaritinu Saveur.  Ég ákvað að nota brauðtertubrauð sem fæst út í búð en einnig er hægt að baka sitt eigið brauð og skera það í sneiðar, langsum.

Þetta endaði á að vera hin glæsilegasta terta og sómaði sér vel á hlaðborðinu og ekkert er til fyrirstöðu að stinga einu eða fleiri kertum á þessa brauðtertu ef það er afmælisbarn á staðnum sem vill blása.

Mynd/Soffía

Laxamauk

400 g reyktur lax

100 ml mæjónes

100 ml rjómi



Blandið saman reyktum laxi, mæjónesi og sýrðum rjóma í blender eða matvinnsluvél.



Rjómaostablanda

300 g rjómaostur

300 ml sýrður rjómi

1 tsk salt

1/2 tsk svartur pipar



Blandið saman rjómaosti og sýrðum rjóma með gaffli.  Kryddið með salti og pipar.



Sinnepssósa

1 1/2 msk sykur

1 1/2 msk Dijon sinnep, við stofuhita

1 1/2 msk sætt sinnep, við stofuhita

1/2 tsk salt

100 ml góð ólífuolía, við stofuhita



Hráefnið í sinnepssósuna þarf að vera við stofuhita svo það skilji sig ekki. Blandið öllu saman og hrærið því vel saman t.d með gaffli.



Álegg milli laga og ofan á tertu

400 g reyktur lax

2-3 soðin egg

1/2 agúrka

Romaine salat

Steinselja, með flötum laufum

Smjör, 2-3 msk

Mynd/Soffía

Fyrsta lag:

Smyrjið laxamaukinu á brauðtertubrauðsneið og þekið svo með agúrkusneiðum.



Annað lag:


Smyrjið smá smjöri á næstu brauðtertusneið.  Leggið svo laxasneiðar ofan á brauðsneiðina.  Geymið nokkrar sneiðar til að skreyta tertuna. Smyrjið sinnepssósunni yfir laxasneiðarnar.

Dreifið salati yfir laxinn og sinnepssósuna.

Gerið fyrsta og annað lag til skiptist miðað við hversu mörg lög þið viljið hafa, ég var með fimm sneiðar og því tvö lög af hvoru.

Mynd/Soffía

Nú kemur að því að draga fram listamanninn í ykkur.  Ég skreytti með soðnu eggi sem ég skar í sneiðar, reyktum laxi, rækjum og steinselju.  Þessi með flötum laufum kemur fallega út.

Byrjið á því að smyrja rjómaostblöndunni á allar hliðar kökunnar, svipað og ef þið væruð að smyrja köku með smjörkremi. 

Ég bjó til rósir úr laxinum, það er mjög auðvelt, maður einfaldlega rúllar upp þunnum laxasneiðum.

Mynd/Soffía

Soffía heldur úti matarblogginu Húsið við sjóinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×