Innlent

Páll Matthíasson skipaður forstjóri Landspítalans

Jakob Bjarnar skrifar
Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans og setið í framkvæmdastjórn spítalans og þar af einn af staðgenglum forstjóra.
Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans og setið í framkvæmdastjórn spítalans og þar af einn af staðgenglum forstjóra. Mynd/Vilhelm
Páll Matthíasson geðlæknir hefur verið skipaður forstjóri Landspítalans í stað Björns Zoega sem sagði starfi sínu lausu í síðustu viku.

Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans og setið í framkvæmdastjórn spítalans og þar af einn af staðgenglum forstjóra.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra fundaði með framkvæmdastjórn Landspítalans í morgun þar sem hann tilkynnti ráðninguna. 

Páll er fæddur árið 1966 í Reykjavík, lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands með ágætiseinkunn árið 1994 og vann kandídatsár sitt á Landspítalanum.

Páll var deildarlæknir á lyflækningasviði og geðsviði Landspítala og starfaði einnig í héraði. Frá 1997-2007 starfaði Páll í Lundúnum, fyrst við framhaldsnám í geðlækningum og síðar sem sérfræðingur og yfirlæknir á stofnunum innan opinbera heilbrigðiskerfisins og hins einkarekna.

Páll var sérfræðingur á South London& Maudsley NHS Trust, yfirlæknir á Oxleas NHS Trust og yfirlæknir á Huntercombe Roehampton Hospital.

Páll vann að uppbyggingu nýrrar spítalaþjónustu og breytingastjórnun tengdum þeim og hefur sérstaklega beint sjónum að áhrifaþáttum starfsánægju.

Árið 2006 lauk Páll doktorsprófi frá Geðfræðastofnun Lundúnaháskóla. Hann er klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands.

Frá 2007 hefur Páll starfað á Landspítala, fyrst sem yfirlæknir og frá 1. maí 2009, ráðinn til 5 ára, sem framkvæmdastjóri Geðsviðs með setu í framkvæmdastjórn spítalans og einn af staðgenglum forstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×