Innlent

Þeir sem leggja ólöglega fá sektir

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brýnir fyrir þeim ökumönnum sem ætla að leggja leið sína um Laugardalinn á landsleik Íslands og Albaníu að leggja löglega. Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að reynsla síðustu ára sýni að bílastæði við völlinn hafa ekki verið fullnýtt þegar ýmsir stórviðburðir fara fram.

Búast má við að lögreglan verði á ferðinni um Laugardalinn í kvöld og muni sekta þá ökumenn sem leggja ökutækjum sínum ólöglega. Sekt vegna stöðubrots nemur 5.000 krónum og rennur í Bílastæðasjóð.

Ljóst er að ekki geta allir vallargestir lagt bílum sínum við Laugardalsvöllinn en í nágrenni hans eru víða ágæt bílastæði. Þess má geta að veðurútlitið er bærilegt, þrátt fyrir spá um rigningu, og því ætti engum að muna um að leggja smáspöl frá leikvanginum og ganga í fáeinar mínútur að vellinum. Uppselt er á leikinn í kvöld og því viðbúið að mikil umferð verði í Laugardalnum og nágrenni hans, en fólk er hvatt til að mæta tímanlega á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×