Innlent

Vetrarferðamönnum fjölgaði um 71 prósent

Boði Logason skrifar
Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar á fundi í Hörpu í dag þar sem vetrarherferðin Ísland – allt árið var kynnt.
Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar á fundi í Hörpu í dag þar sem vetrarherferðin Ísland – allt árið var kynnt.
„Markmiðið er að fjölga ferðamönnum utan háannar enn frekar, skapa fleiri störf og auka hagvöxt og gjaldeyristekjur. Veturinn 2012 til 2013 komu 71 prósent fleiri ferðamenn til landsins en veturinn 2009 til 2010,” sagði Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar á fundi í Hörpu í dag þar sem vetrarherferðin Ísland – allt árið er kynnt.

Árni sagði að þessi fjölgun skili sér í auknum gjaldeyristekjum og vístaði meðal annars til upplýsinga frá Rannsóknarsetri verslunarinnar um að mikill vöxtur hafi verið í erlendri kortaveltu það sem af er ári.

„Þannig má sjá að kortavelta bílaleiga hér á landi vegna erlendra ferðamanna hefur aukist um 77% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Þá jókst erlend kortavelta vegna heimsókna á söfn og gallerí um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra og vegna tónleika og leikhúss um 38%. Verslun hefur einnig notið góðs af þessari auknu erlendu kortaveltu það sem af er ári, en hún jókst um 29% á milli ára.”

Þá sagði Árni að könnun sýni að 95% ferðamanna séu ánægðir með dvöl sína hér á landi og 85% töldu líklegt að þeir myndu heimsækja landið aftur.

Inga Hlín Pálsdóttir, hjá Íslandsstofu
Á fundinum í Hörpu var átakinu um leyndarmálalandið Ísland kynnt þar sem Íslendingar eru hvattir til að deila stórum sem smáum leyndarmálum um landið. 

Inga Hlín Pálsdóttir hjá Íslandsstofu kynnti átakið sem er hvort tveggja ætlað að kynna ferðamönnum faldar íslenskar náttúruperlur sem og að dreifa ferðamannastraumi víðar um land.

„Þetta þarf ekki endilega að vera einhver staður. Þetta getur allt eins verið uppáhalds kaffihúsið, búðin eða bara saltfiskrétturinn hennar ömmu. Markmiðið er að vekja áhuga ferðamanna á að kynnast íslenskri náttúru, ævintýrum og menningu með því að segja þeim frá einstökum upplifunum sem hægt er að eiga hér á landi.,” sagði Inga Hlín á fundinum í dag.

Meðal aðferða sem notuð verða til að koma leyndarmálum á framfæri við ferðamenn er leyndarmálasjálfsali sem komið verður fyrir í miðbæ Reykjavíkur.

„Þar munu ferðamenn geta valið af handahófi leyndarmál sem þeir geta upplifað.”

Hægt er að deila leyndarmálum með því að fara inn á heimasíðu Inspired by Iceland.

Íslensk náttúra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×