Innlent

Jón Gnarr hefur rætt við hátt í 500 erlenda fjölmiðla

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Jón Gnarr skellti sér í fótalaugina út á Gróttu í viðtalinu við Channel 7.
Jón Gnarr skellti sér í fótalaugina út á Gróttu í viðtalinu við Channel 7. Myndir/Reykjavíkurborg
Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, er í veigamiklu hlutverki í ferðaþætti sem ástralska sjónvarpsstöðinni Channel 7 er að vinna um Ísland. Erlendir fjölmiðalar hafa sýnt borgarstjóranum mikinn áhuga frá því að hann tók við lyklunum í Ráðhúsi Reykjavíkur og hefur hann rætt við hátt í 500 erlenda fjölmiðla á tíma sínum sem borgarstjóri. Greint er frá þessu á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Jón ræddi við þáttastjórnandann Anh Do á ýmsum stöðum í Reykjavík. Níu manna hópur frá Channel 7 er hér á landi. Viðtalið hófst á skrifstofu borgarstjórans en síðan ræddi Jón um Reykjavík og Ísland fyrir framan stóra landakortið í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá var einnig farið að styttu Leifs Eiríkssonar við Hallgrímskirkju og kíkt í kaffi á Laundromat í Austurstræti. Viðtalinu lauk í heita pottinum úti við Gróttu þar sem borgarstjóri og Anh Do lauguðu fætur sínar á meðan þeir spjölluðu með Reykjavík og Esjuna í baksýn.

Ástralirnir eru hér við tökur í um níu daga og mynda m.a. torfærubíla, sjósundsfólk í ullarsundfötum, Bláa lónið, Gullfoss og Geysi og fleira skemmtilegt. Þátturinn verður sýndur í byrjun nóvember í Ástralíu og litlu síðar á Nýja Sjálandi og Víetnam en Anh Do er af víetnömskum uppruna og nýtur einnig gríðarlegra vinsælda þar í landi. Reiknað er með að tvær milljónir horfi á þáttinn í Ástralíu einni og um sex milljónir sjái þáttinn á endanum í löndunum þremur.

Anh Do og Jón Gnarr við stóra landakortið í ráðhúsi Reykjavíkur.Mynd/Reykjavíkurborg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×