Innlent

Gekk 48 kílómetra og færði starfsfólki Landspítalans leikhúsmiða

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hilmar fyrir miðju, með honum eru Baldvin Haukur Júlíusson, bróðir Hilmars, og Haraldur Haraldsson félagi hans.
Hilmar fyrir miðju, með honum eru Baldvin Haukur Júlíusson, bróðir Hilmars, og Haraldur Haraldsson félagi hans. Mynd/Víkurfréttir
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, gekk frá Keflavík á Landspítalann í Fossvogi í gær og færði starfsfólki deildarinnar A-7 leikhúsmiða.

Ástæðan fyrir þessum gjörningi er þakklæti Hilmars í garð hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem önnuðust hann þegar hann lá á deildinni fyrir þremur mánuðum síðan.



„Ég er með sykursýki 2 og í byrjun júní fékk ég blóðeitrun og varð alvarlega veikur. Ég var næstum búinn að drepa mig á óhollustu og hugsaði ekkert um líkamann."



Hilmar lá á deildinni í þrjár vikur og vildi þakka starfsfólkinu fyrir að sinna honum allan sólarhringinn og færði þeim fimmtíu leikhúsmiða.

„Það var klappað fyrir mér þegar ég kom og bauð þeim í leikhús enda var starfsfólkið ánægt að fá viðurkenningu fyrir sitt góða starf," segir Hilmar.

Hilmar gekk 48 kílómetra og tók gangan allan daginn.

„Ég vildi ganga þessa leið til þess að fagna breyttum lífsstíl. Eftir að ég útskrifaðist af spítalanum tók ég mig í gegn, ég er búinn að missa 26 kíló og lifi miklu betra lífi í dag."

Hilmar færði sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum á deild A-7 fimmtíu leikhúsmiðaMynd/Úr einkasafni
Á morgun mun Hilmar einnig færa sextíu starfsmönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja leikhúsmiða. Hann lá þar inni eftir dvölina á Landspítalanum. Samtals gefur hann 110 leikhúsmiða og þeir kosta sitt.

"Ég er búinn að fjalla mikið um breyttan og bættan lífsstíl á Facebook-síðu minni og hef reynt að vekja fólk til umhugsunar um eigin heilsu. Þegar ég ákvað að sýna starfsfólkinu þakklætisvott efndi ég til söfnunar á síðunni minni og fékk mjög góð viðbrögð frá vinum mínum sem gerðu þetta mögulegt," segir Hilmar.

Hilmar var að vonum þreyttur í gærkvöldi eftir gönguna miklu. Gangan tók samtals átta og hálfan tíma en hann fékk góðan félagsskap á leiðinni.

"Bróðir minn labbaði alla leiðina með mér og svo voru margir sem gengu nokkra kílómetra, bút og bút af leiðinni. Við fengum dæmigert íslenskt veður, allar tegundir af veðri sem var hressandi," segir Hilmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×