Innlent

Búist við hitafundi í Valhöll

Valhöll
Valhöll
Búist er við hitafundi þegar stjórn Varðar, sjálfstæðisfélaga í Reykavík, kemur saman í Valhöll nú í hádeginu til að móta tillögu um hvernig valið verður á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Deilt er í meginatriðum um tvær tillögur. Annars vegar svokallað leiðtogakjör sem felur í sér að kosið verði sérstaklega um oddvitasætið og hins vegar hefðbundið prófkjör. Sú tilllaga sem verður samþykkt í dag verður síðan lögð fram til samþykkis á félagsfundi Varðar sem haldinn verður á morgun.

Mikil óánægja ríkir meðal borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks með tillöguna um sérstakt leiðtogakjör. Eins og fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær telja sumir að með leiðtogakjöri sé lítill hópur flokksmanna að reyna að hafa óeðlileg áhrif á lýðræðislegt ferli.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru það meðal annars stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns, sem styðja tillöguna um leiðtogakjör. Guðlaugur hefur verið orðaður við oddvitasæti flokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum en hann hefur þó ekki lýst formlega yfir framboði.

Mikill ágreiningur er um málið innan flokksins. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í grein sem birtist á vef Evrópuvaktarinnar að sérstakt leiðtogakjör muni hvorki verða Sjálfstæðisflokknum til álitsauka né auka sigurlíkur hans í borgarstjórnarkosningunum. Höfundur Staksteina Morgunblaðsins í dag tekur undir þessi orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×