Innlent

Obama færði rök fyrir hernaðaraðgerðum á fundi með leiðtogum Norðurlanda

Heimir Már Pétursson skrifar
Barack Obama forseti Bandaríkjanna færði fram rök fyrir stuðningi alþjóðasamfélagsins við hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandsstjórn á fundi með leiðtogum Norðurlandanna í Stokkhólmi í gær. Forsætisráðherra segir íslensk stjórnvöld leggja áherslu á aðkomu Sameinuðu þjóðanna að öllum aðgerðum í Sýrlandi.

Á fundinum reifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stöðuna í málefnum Norðurslóða og segir hann að forsetinn hafi sýnt þeim málum mikinn áhuga. En Obama leitar þessa dagana eftir víðtækum stuðningi við hernaðaraðgerðir gegn Sýrlandsstjórn vegna meintra efnavopnanotkunar hennar í borgarastríðinu í Sýrlandi og færði fram rök fyrir því á leiðtogafundinum í gær.



Við höldum okkur auðvitað við mikilvægi þess að Sameinuðu þjóðirnar komi að málinu. Það er rétt sem ýmsir hafa bent á að Sameinuðu þjóðirnar eða öryggisráðið sérstaklega hafa í raun brugðist í málefnum Sýrlands og þurfa að taka þau fyrir af miklu meiri festu og alvöru en gert hefur verið. Svo við viljum gjarnan sjá það gerast en engu að síður þurfum við og viljum reiða okkur á aðkomu Sameinuðu þjóðanna í svona málum, segir forsætisráðherra.

Hagsmunir þjóðanna voru líka ræddir en fyrir dyrum stendur að gerður verði fríverslunarsamningur milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Það er því spurning hvernig Ísland geti aukið viðskipti sín við Bandaríkin. Sigmundur Davíð segir að þeir möguleikar séu umtalsverðir. Það hafi verið sett inn í sameiginlega yfirlýsingu leiðtoganna að stefnt væri að því að efla bein tengsl Norðmanna og Íslendinga annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×