Innlent

Íslendingur í fyrsta sæti bresku útvarpsverðlaunanna

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Sigurður Þorri Gunnarsson vann fyrstu verðlaun bresku útvarpsverðlaunanna fyrir útvarpsheimildarþátt sinn, A Place To belong.
Sigurður Þorri Gunnarsson vann fyrstu verðlaun bresku útvarpsverðlaunanna fyrir útvarpsheimildarþátt sinn, A Place To belong.
Sigurður Þorri Gunnarsson,  vann fyrstu verðlaun  í bresku útvarpsverðlaunum, British Public Radio Award í flokki stuttra heimildarþátta. Sigurður sem er 24 ára Akureyringur vann verðlaunin fyrir útvarpsþáttinn A Place To Belong eða Staður sem maður tilheyrir.

Á annað hundrað þátta voru sendir til keppni í þessum flokki og voru fjórir tilnefndir til verðlauna. Sigurður átti tvo þeirra þátta sem tilnefndir voru.

Að sögn Sigurðar hafa dómarnir allir unnið á BBC til fjölda ára og eru mjög virtir innan bransans þannig að viðurkenningin er mikil.

Sigurður segir að þátturinn fjalli um kór hinsegin fólks í norð-austur Bretlandi. Í þáttunum veltir hann því upp hvað það er sem dregur fólk saman í söng. Það séu alls konar kórar starfandi víðsvegar, kórar hinsegin fólks, kórar eldri borgara, kórar starfsfólks háskóla og þannig mætti lengi telja.

„Í þessum þætti skoðaði ég það hvað það er sem dregur minnihlutahópa saman, hvað það gerir fyrir fólkið að vera saman í kór og hvort það hjálpi þeim á einhvern hátt,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að í kórnum geti þau komið saman og verið örugg, fólkið geti deilt sameiginlegum áhugamálum og svipuðum bakgrunni. Þau geti verið þau sjálf, sumir séu jafnvel ekki komnir út úr skápnum og aðrir hafa átt erfitt heima fyrir eða í samfélaginu vegna kynhneigðar sinnar.

„Þau deila þessum sameiginlegu upplifunum í gegnum sönginn og létta sér lundina um leið. Þetta er fólk úr öllum stigum samfélagsins, sá elsti var kominn vel á sjötugsaldurinn en aðrir voru mun yngri,“ segir hann.

Sigurður stundar nú nám í fjölmiðlafræði  og leggur áherslu á útvarpsfjölmiðlun. Hann býr í bænum Sunderland í Norð-austur Bretlandi og starfar einnig á útvarpsstöð í bænum.

„Ég smitaðist mjög snemma af útvarpsbakteríunni. Ég var 12 ára þegar ég setti á laggirnar mína fyrstu útvarpsstöð heima á Akureyri. Ég hef í raun ekki snúið til baka síðan, lífið mitt snýst um útvarp. Það má segja að útvarpið sé ástin í lífi mínu,“ segir Sigurður.

Hann segist hafa valið að fara til Bretlands þar sem Bretar séu þekktir fyrirað vera framarlega á sviði fjölmiðlunar og sérstaklega á sviði útvarpsfjölmiðlunar. Hann hefur komist í kynni við fólk frá BBC sjónvarps- og útvarpsstöðinni og hann segist hafa lært heilmikið af þeim. Einnig hafi hann komist í kynni við fólk í einkageiranum.

„Ég nýti mér öll þau tækifæri sem mér gefast og ég ætla mér að ná sem bestri þekkingu á þessu sviði,“ segir Sigurður.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×