Innlent

13 ára strákur skoraði sjö sinnum hjá David James

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Kolbeinn Þórðarson skoraði sjö sinnum í mark hjá David James.
Kolbeinn Þórðarson skoraði sjö sinnum í mark hjá David James.
David James, markmaðurinn frægi var í marki í vítaspyrnukeppni sem haldin var í Fífunni í Kópavogi í dag. Sigurvegari keppninnar var Kolbeinn Þórðarson, 13 ára leikmaður 4. flokks HK.

Kolbeinn sigraði keppnina með sjö mjög öruggum vítaspyrnum fram hjá David James en David James er sá markamður sem oftast hefur haldið markinu hreinu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar eða 173 sinnum.

Það virðist því vera bjart framundan hjá HK, með þennan efnilega dreng í sínu liði.

Kolbeini fannst mjög gaman að hitta David James en hingað til hefur Kolbeinn aðeins séð David í sjónvarpinu að spila, til dæmis á HM og á leikjum á Íslandi.

„Hann þakkaði mér fyrir leikinn og sagði að ég væri mjög góð vítaskytta. Þjálfarinn minn í HK var líka að keppa á mótinu og hann lenti í þriðja sæti. Hann var mjög stoltur af mér fyrir sigurinn,“ segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir að eitt það skemmtilegasta sem hann geri sé að spila fótbolta. Hann vill koma þakkarkveðjum til Gauta frænda síns á Akureyri sem var dreginn út til að keppa á mótinu en komst ekki og leyfi því Kolbeini að taka þátt í sinn stað.

Það var Orkan sem sem hélt mótið og var vítaspyrnukeppnin lokahnykkur í sumarleik Orkunnar. Sigurvergarinn fékk 100 þúsund króna inneign á bensín frá Orkunni.

„Ég ætla að láta mömmu fá vinninginn,“ segir Kolbeinn.

6000 manns skráðu sig til leiks og 20 voru valdir af handahófi til að taka þátt. Keppt er með útsláttarfyrirkomulagi, þeir sem brenndu af voru úr leik og engin miskunn.

Í öðru sæti á mótinu var Tindur Snær Schram og í þriðja sæti var Ragnar Mar Sigrúnarson sem er einmitt þjálfari Kolbeins hjá HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×