Innlent

Segir ríkisstyrki til Strætó ólöglega

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Félag hópferðaleyfishafa hefur sent innanríkisráðuneytinu og Eftirlitsstofnun EFTA formlega kvörtun þar sem krafist er aðgerða vegna ríkisstyrkja til Strætó bs. Styrkirnir eru sagðir ólöglegir og  segir framkvæmdarstjóri Félags hópleyfishafa að opinbert fé sé notað til að drepa niður frjálsa samkeppni.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær voru almenningssamgöngur færðar til sveitarfélaga með vegaáætlun í fyrra og hafa þau séð um reksturinn síðan í janúar.Björn segir að í kjölfarið hafi sveitarfélög um allt land falið Strætó bs. umsjón með útboðum til einkaleyfa á almenningssamgöngum með ólöglegum hætti.

Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Félags hópferðaleyfishafa, segir að Strætó bs. hafi svo undantekningalaust hafa falið einu fyrirtæki umsjón með akstrinum. Með þessum hætti á Strætó að hafa haslað sér völl inn í ferðamannabransann, og að nú sé fyrirtæki sem er með gríðarlegan fjárstuðning frá opinberum aðilum komið í beina samkeppni við hópferðafyrirtæki. Björn segir samkeppnisstöðuna verulega skekkta vegna þessa.

Björn segir að ástandið sem núna ríkir sveitafélögum Eyþings komi honum ekki á óvart. Það hafi í raun verið fyrirsjáanlegt þegar opinberir aðilar, sem ekki hafi reynslu í hópferðaflutningum, eru allt í einu komnir slíkan rekstur.

„Eðlileg næstu skref eru að þessi landshlutasamtök sem sem sáu um reksturinn fari í þrot. Það gengur auðvitað ekki að það sé skilinn eftir opinn reikningur á skattgreiðendur, þar sem þeir eru látnir greiða tap sem að er algjörlega ófyrirséð hversu mikið verður,“ segir Björn, og tekur fram að að hægt sé að spara skattgreiðendum mikla fjármuni með því að láta einkaaðila taka yfir reksturinn á nýjan leik, þeir geti sinnt honum án opinbers stuðnings.

„Ég tel brýnast af öllu að það verði undið ofan að þessari alsherjar þjóðnýtingu hópferðaflutninga sem hefur verið að eiga sér stað síðustu ár. Það skiptir gríðarlega miklu máli á þessum tímum þar sem það er mikil hagræðingarkrafa í opinberum rekstri. Hér er hægt að spara mjög mikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×