Innlent

Gimsteinn sem er þess virði að sjá

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Málmhaus fjallar um stúlku sem finnur sáluhjálp í þungarokki.
Málmhaus fjallar um stúlku sem finnur sáluhjálp í þungarokki.
Málmhaus, ný kvikmynd eftir Ragnar Bragason, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto síðastliðinn laugardag.

Ragnar Bragason er lofaður af Todd Brown í dómi hans um kvikmyndina á síðunni Twitchfilm.

Í dómnum segir að Málmhaus sé óaðfinnanlega gerð og fagurlega leikin mynd, lítill gimsteinn sem svo sannarlega sé þess virði að sjá.

Ragnari Bragasyni er hrósað í hástert í dómnum og sagt að hann muni að öllum líkindum fá þá athygli og lof fyrir kvikmyndina sem hann átti skilið að fá fyrir löngu síðan.

„Bragason er einfaldlega sá leikstjóri sem líklegastur er til að feta í fótspor Baltasars Kormáks og ná árangri á alþjóðlega sviðinu.“

Þorbjörg Helga Dýrfjörð leikur aðalhlutverkið í kvikmynd eftir Ragnar Bragason.
Þorbjörg Helga Dýrfjörð, sem fer með aðalhlutverk myndarinnar, er einnig lofuð í dómnum.

„Það er augljóst að hin óttalausa aðalleikkona mun fá tilboð hvaðanæva úr heiminum í kjölfar myndarinnar,“ skrifar Todd Brown.

Málmhaus fjallar um Heru Karlsdóttur sem í æsku sinni er áhyggjulaus í sveitinni þar til harmleikur dynur yfir.

Eldri bróðir hennar deyr af slysförum og Hera kennir sjálfri sér um dauða hans. Í sorginni finnur hún sáluhjáp í þungarokki og dreymir um að verða rokkstjarna.

Þorbjörg Helga Dýrfjörð leikur Heru og auk hennar leika Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir helstu hlutverk. Málmhaus verður frumsýnd á Íslandi 11. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×