Innlent

Ljósanótt lauk degi síðar vegna veðurs

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ljósanótt lauk með glæsilegri flugeldasýningu.
Ljósanótt lauk með glæsilegri flugeldasýningu. Mynd/Reykjanesbær
Ljósanæturhátíðin lauk í gærkvöld í Reykjanesbæ með glæsilegri flugeldasýningu, sólarhring síðar en fyrirhugað var. Þetta er í 14. sinn sem hátíðin fer fram. Blása þurfti af alla kvölddagskrá á laugardagskvöld vegna slæms veðurs. Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur, verkefnastjóra Ljósanætur, gekk hátíðin einkar vel fyrir sig að öðru leyti og var mjög fín stemmning í bænum frá fimmtudegi og fram á sunnudagskvöld.

Ljósanótt í Reykjanesbæ er ein stærsta bæjarhátíð landsins og sækja tugþúsundir hátíðina heim á ári hverju. Fresta þurfti dagskrá á laugardagkvöldinu vegna veðurs og meðal annars atriðinu Fyrsti kossinn: Hljómar í 50 ár sem hafði verið æft sérstaklega fyrir hátíðina. Atriðið verður hins vegar flutt í Andrew's leikhúsinu á Ásbrú næstkomandi miðvikudag.

Valgerður leggur áherslu á að hátíðin sé svo miklu meira en dagskrá kvölddagskrá laugardagsins og ekki mætti gleyma öllu því fólki sem stóð fyrir glæsilegum sýningum og margvíslegum viðburðum um allan bæ í fjóra heila daga og að ekki kæmi til greina að láta þetta laugardagsbakslag draga kraftinn úr bæjarbúum. Hátíðin hafi verið frábær að öllu öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×