Innlent

Anna Gunnhildur nýr framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Anna Gunnhildur er nýr framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Anna Gunnhildur er nýr framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Anna Gunnhildur hefur nýlokið diplómanámi í Opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands (HÍ). Þetta kemur fram í tilkynningu sem Geðhjálp sendir til fjölmiðla í dag.

Anna Gunnhildur er með MBA-gráðu í viðskiptum og stjórnun með áherslu á mannauðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík, BA-gráðu í íslenskum fornbókmenntum og fjölmiðlafræði ásamt diplómanámi í uppeldis- og kennslufræði frá HÍ.

Anna Gunnhildur hefur gegnt starfi deildarstjóra á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara síðustu ár. Samtals hefur hún starfað við verkefnisstjórnun, sérfræði- og stjórnunarstörf hjá Reykjavíkurborg í ríflega 8 ár. Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu í 15 ár og lagði áherslu á samfélagsmál á borð við geðheilbrigðismál í skrifum sínum. Eiginmaður Önnu Gunnhildar er Davor Purusic, lögfræðingur hjá Umboðsmanni skuldara, og eiga þau tvær dætur.

Markmið Geðhjálpar er að vinna að hagsmunamálum einstaklinga með geðrænan vanda og aðstandenda þeirra. Félagið hefur gengið að kauptilboði í húseign sína við Túngötu 7 í þeim tilgangi að greiða niður skuldir félagsins og efla starfsemi þess til framtíðar. Leitað er að hagkvæmu húsnæði undir starfsemina um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×