Innlent

Háskólinn fundar vegna meints „dónakarls“

Kristján Hjálmarsson skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson á að vera gestafyrirlesari í HÍ. Daði Már Kristófersson er forseti félagsvísindadeildar og Baldur Þórhallsson kennari við deildina.
Jón Baldvin Hannibalsson á að vera gestafyrirlesari í HÍ. Daði Már Kristófersson er forseti félagsvísindadeildar og Baldur Þórhallsson kennari við deildina.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ekki verið ráðinn sem kennari við Háskóla Íslands heldur var hann fenginn til að vera gestafyrirlesari á námskeiði í alþjóðastjórnmálum. Þetta segir Daði Már Kristófersson, formaður félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hafi fengið Jón Baldvin til að leysa sig af á námskeiðinu þar sem hann er á leið í rannsóknarleyfi. Daði Már ætlar að funda með Baldri vegna málsins seinna í dag.

Eins og fram kom á Vísi fyrr í mánuðinum mun Jón Baldvin kenna námskeið við Háskóla Íslands um smáþjóðir og hvernig þeim farnast í alþjóðakerfinu. Námskeiðið verður kennt á ensku enda margir stúdentar erlendis frá. Síðastliðið vor kenndi Jón Baldvin sambærilegt námskeið við Alþjóðamálastofnun háskólans í Vilníus í Litháen.

Töluverðrar gagnrýni hefur gætt vegna málsins og í dag birtist færsla á vefnum Knúz.is undir fyrirsögninni Háskóli Íslands - griðastaður dónakarla?. Höfundar greinarinnar eru Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Helga Þórey Jónsdóttir.

Í greininni spyrja þær hvað hafi ráðið því að skólinn hafi ekki tilkynnt sérstaklega um það að „virtur“ fyrrverandi utanríkisráðherra og diplómat hygðist taka að sér kennslu, þótt auðvitað bæri fyrst að spyrja hvernig menntastofnun sem hefur stefnt að því að komast í hóp þeirra hundrað bestu geti talið sér sæmd í slíkri ráðningu til að byrja með.

„En kannski vildi skólinn ekki þurfa að verja ráðningu mannsins, skiljanlega því Jón Baldvin Hannibalsson er dónakall,“ segja þær Hildur og Helga Þórey.

Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindadeildar, segir að um ákveðinn misskilning sé að ræða. Jón Baldvin hafi „alls ekki“ verið ráðinn sem kennari við Háskóla Íslands heldur hafi Baldur Þórhallsson fengið hann inn sem gestafyrirlesara í námskeiðið þar sem hann væri á leið í rannsóknarleyfi. Í bréfi Hildar og Helgu Þóreyjar komi hins vegar fram punktar sem þurfi að ræða.

„Í þessum pistli koma fram sjónarmið sem við þurfum nauðsynlega að taka tillit til og ræða. Ég þarf að ræða það við Baldur áður en lengra er haldið,“ segir Daði Már sem ætlar að hitta Baldur í dag. Hann ítrekar að Jón Baldvin hafi ekki verið ráðinn sem kennari. „Ef Jón Baldvin hefði verið ráðinn við skólann hefði það farið í gegnum allt annað ferli.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.