Viðskipti innlent

"Afl kaupfélagsins var svo gífurlegt, allsráðandi, að maður varð að millifæra þessa peninga“

Valur Grettisson skrifar
Kirstín Flygenring hagfræðingur ásamt Sigurði Halli Stefánssyni, fyrrum héraðsdómara og Jóni Þorvaldi Heiðarssyni lektor í viðskiptafræðideild í Háskólanum á Akureyri.
Kirstín Flygenring hagfræðingur ásamt Sigurði Halli Stefánssyni, fyrrum héraðsdómara og Jóni Þorvaldi Heiðarssyni lektor í viðskiptafræðideild í Háskólanum á Akureyri. Mynd / Villi)
Kristján Hjelm, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Hólahrepps lýsir því í rannsóknarskýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóðs, að honum hafi verið hótað brottrekstri ef hann millifærði ekki fé sem Íbúðalánasjóður hafði lagt inn á reikning sparisjóðsins, en upphæðin voru rúmar 16 milljónir króna.

Orðrétt er haft eftir Kristjáni í skýrslunni:  „Mér var hótað brottrekstri, maður var minntur á ýmislegt og ekki í fyrsta og eina skiptið sem maður var minntur á hver réði […] Afl kaupfélagsins var svo gífurlegt, allsráðandi, að maður varð að millifæra þessa peninga.“

Sá sem hann segir að hafi hótað sér var Sigurjón Rúnar Rafnsson og þegar hann talar um Kaupfélag, á hann við Kaupfélag Skagfirðinga, sama félag og átti Fjárvaka.

Forsaga málsins er sú að Íbúðalánasjóður samdi við Fjárvaka um hugbúnaðarlausnir.

Til þess að skýra tengslin, þá segir í rannsóknarskýrslu Alþingis að Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga (KS), var og er áhrifamaður innan Framsóknarflokksins, Kaupfélag Skagfirðinga átti svo Fjárvaka.

Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs var þá Guðmundur Bjarnason, sem var varaformaður Framsóknarflokksins áður en hann hætti þingmennsku og hóf störf í Íbúðalánasjóði.

Þrátt fyrir gerða samninga við Fjárvaka þá gat fyrirtækið aldrei staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Íbúðalánasjóði. Ástæðan var sú að kerfi þeirra, FlexCube, réði ekki við séríslenskar aðstæður. Kerfið átti meðal annars að sjá um innheimtu fyrir sjóðinn.

Í stuttu máli þá var samningum við Fjárvaka rift árið 2002 og undirritaður samningur um að Sparisjóður Hólahrepps sæi um innheimtur fyrir sjóðinn.

Sama dag og ritað var undir samning við Sparisjóðinn sendi hann reikning á Íbúðalánasjóð.

Í skýrslunni segir orðrétt: „Reikningurinn var að fjárhæð 16.125.000 krónur. Upphæðin samsvarar 9 milljónum á ári eins og í samningnum sem átti að gilda frá og með 1. janúar 2002. Um greiðslur aftur í tímann stóð ekki í samningnum og því var þessi greiðsla ekki samkvæmt honum. “

Það gerist svo örfáum dögum síðar að Íbúðalánasjóður greiðir fjárhæðina inn á reikning í eigu Sparisjóðs Hólahrepps en fjárhæðin var svo millifærð sama dag á reikning í eigu Fjárvaka.

Samkvæmt Kristjáni Hjelm, sparisjóðsstjóra, hafði Sigurjón Rúnar Rafnsson hringt í hann og sagt Fjárvaka eiga peninga inni á reikningi sparisjóðsins og krafðist þess að fá þá millifærða.

Kristján segist hafa mótmælt í fyrstu en þess í stað boðist til þess að bakfæra peningana aftur til Íbúðalánasjóðs sem hefði þá getað lagt fjárhæðina beint inn á reikning Fjárvaka.

Kristján sagði Sigurjón ekki hafa tekið það í mál og Kristján lét að lokum undan kröfum hans.

Ástæðan fyrir því að hann lét undan kröfu Sigurjóns var eins og fyrr segir; afl kaupfélagsins var svo gífurlegt, allsráðandi, að Kristján segist hafa fundið sig nauðbeygðan til þess að millifæra þessa peninga.

Hægt er að skoða nánar sögu Fjárvaka í skýrslu nefndarinnar hér.


Tengdar fréttir

Hallur ætlar ekki í mál við Jónas

Hallur Magnússon ætlar að höfða meiðyrðamál á hendur skýrsluhöfundum um málefni Íbúðalánasjóðs en telur ekki ástæðu til að fara í mál við Jónas Kristjánsson sem segir hann hlekk í raðtengdu ógeði Framsóknarflokksins.

95 milljarða króna lán líklega ólöglegt

Allt bendir til þess að tæplega 100 milljarða króna lán Íbúðalánasjóðs til banka og sparisjóða hafi verið ólöglegt samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um málefni Íbúðalánasjóðs.

Skuldabréfaskiptin ein verstu mistökin

Rannsóknarnefnd Alþingis um starsemi Íbúðalánasjóðs segir í kolsvartri skýrslu um sjóðinn að ein verstu mistökin sem voru gerð hjá sjóðnum hafi verið þegar íbúðabréfakerfið var tekið upp árið0 2004 og húsbréfakerfið lagt niður.

Íbúðalánasjóði breytt í áhættusækinn útlánabanka

Rannsókn á málefnum Íbúðalánasjóðs leiddi í ljós margvísleg mistök í rekstri sjóðsins, sum alvarleg sem kostað hafa þjóðina milljarða króna og í raun er ekki séð fyrir endann á þeim kostnaði. Ein veigamesta og afrifaríkasta ákvörðunin sem gerð var á þessu tímabili var niðurlagning húsabréfakerfisins árið 2004 og sú ákvörðun að hækka hámarkslánsfjárhæð og veðhlutfall lána sjóðsins, en það hækkaði úr 65% í 90%. Þetta var í raun pólitísk ákvörðun tekin af þáverandi ríkisstjórn.

Íbúðalánasjóður hefði átt að heyra undir fjármálaráðuneyti

Slæm staða Íbúðalánasjóðs er rakin til vanhæfni stjórnenda Íbúðalánasjóðs og sinnuleysi af hálfu helstu eftirlits- og valdastofnana. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir bankinn hafi misst sjónar á raunverulegu hlutverki sínu og farið í útrás í stað þess að félagslegs aðhalds á faseignamarkaði.

Stefnir rannsóknarnefnd Alþingis fyrir meiðyrði

Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunardeildar Íbúðalánasjóðs, hefur hafið undirbúning á meiðyrðamáli gegn rannsóknarnefnd Alþingis um málefni íbúðalánasjóðs.

Starfsmenn ÍLS skildu ekki áhættustýringu

Starfsmönnum Íbúðalánasjóðs skorti þekkingu til að vinna með þær áhættustýringaraðferðir sem komið var á laggirnar fyrir sjóðinn, segir í niðurstöðukafla kolsvartrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn.

Heildartap íbúðalánasjóðs 270 milljarðar

Heildartap sjóðsins frá stofnun nemur því allt að 270 milljörðum króna, þar af 86 milljörðum vegna útlána og fullnustueigna, 28 milljörðum vegna lausafjárstýringar, 54 milljörðum vegna uppgreiðslna og 103 milljörðum vegna uppgreiðsluáhættu.

Mistök Íbúðalánasjóðs kostað þjóðina milljarða

Í ágripi um helstu niðurstöður rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð segir að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós margvísleg mistök, sum mjög alvarleg, sem hafa kostað þjóðina milljarða króna.

90% lánin enduðu illa og urðu þjóðinni dýrkeypt

Árið 2004 ákváðu stjórnvöld að fara í vissa vegferð með Íbúðalánasjóð. Hún fólst í breyttum útlánum og fjármögnun þeirra. Í fyrsta lagi var húsbréfakerfið lagt niður og íbúðabréfakerfið tekið upp með beinum peningalánum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×