Innlent

Kristjáni Loftssyni lýst sem blóðugum slátrara: Öfgafull ummæli, segir ráðherra

Jakob Bjarnar Grétarsson skrifar
Kristján Loftsson: Blóðugur slátrari og margmilljónamæringur. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra segir skrifin öfgafull.
Kristján Loftsson: Blóðugur slátrari og margmilljónamæringur. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra segir skrifin öfgafull. Mynd/ Anton Brink

Breskir fjölmiðiðlar vilja áfram beina spjótum sínum að Kristjáni Loftssyni og hvalveiðum Íslendinga. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir skrifin óvenju harkaleg.

Neikvæðar fréttir áhyggjuefni

Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf er harðlega gagnrýndur í breska netmiðlinum Morning Star í dag fyrir að ætla að slátra hátt í tvö hundruð Langreyðum í sumar, eins og það er orðað. Pistlahöfundur lýsir því hvernig hinar mögnuðu skepnur langreyðin haldi á Íslandsmið á sumrin en í þetta skipti bíði floti hins blóðuga slátrara og margmilljónamærings Kristjáns Loftsonar eftir hvölunum til að slátra þeim. Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra segir það vissulega áhyggjuefni þegar fjallað er á neikvæðan hátt um Ísland í erlendum fjölmiðlum:

"Það er vissulega alltaf áhyggjuefni þegar birtast neikvæðar fréttir um Ísland. Við þekkjum þessa um hvalveiðarnar og þann skort á skilningi sem þær hafa í mörgum löndum; hina eðlilegu nýtingu okkar á auðlindinni á sjálfbæran hátt. Það er vinna sem við höfum verið í á umliðnum árum og munum án efa halda áfram að reyna að snúa, í erlendum fjölmiðlum sem og annars staðar," segir ráðherra.

Öfgafullar skoðanir

Greinarhöfundur Morning Star gefur ekkert eftir, segir að Kristján gefi lítið fyrir almenningsálit umheimsins í leit sinni eftir illafengnum gróða og honum sé sama þótt þessi mögnuðu spendýr hafsins þjáist mikið þegar þau eru skotinn með sprengjuskutli. Þá hlusti hann heldur ekki á mótmæli samtaka íslenskra ferðamála.

"Þetta eru auðvitað ótrúlega öfgafull ummæli," segir Sigurður Ingi um lýsinguna á Kristjáni Loftssyni. "Og þetta eru oft á tíðum öfgafullar skoðanir sem fólk hefur og byggjast iðulega á þekkingarleysi á atvinnugreinum og nýtingu landa sem hafa aldagamlar hefðir við nýtingu auðlinda sinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×