Viðskipti innlent

Fyrsti olíurisinn sem sækir um Drekann

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons Energy.
Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons Energy. Mynd/Egill Aðalsteinsson.

Kínverska ríkisolíufélagið CNOOC („sínúkk") er fyrsti olíurisinn sem sækir um Drekasvæðið og vonast ráðamenn Eykons Energy til að innkoma hans kveiki áhuga annarra risaolíufélaga heimsins á íslenska landgrunninu.

Tilkynnt var í gær að eitt af stærri olíufélögum heims, CNOOC frá Kína, hefði ákveðið að gerast leiðandi aðili í umsókn Eykons Energy um leitar- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu. Eykons-menn segja þetta marka tímamót í sögu olíuleitar Íslendinga, enda hafi félag af sambærilegri stærðargráðu ekki áður sýnt áhuga sinn á Drekasvæðinu í verki.

Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons, segir CNOOC metið í 34. sæti yfir stærstu olíufélög heims og það er hundrað sinnum stærra en öll hin félögin samanlögð sem til þessa hafa fengið leyfi á Drekasvæðinu.

„Þetta hefur þá þýðingu að það er komið mjög sterkt félag inn. Ég held að þetta geti haft þá þýðingu líka að önnur stór félög fari að taka betur eftir svæðinu, ef félag sem nýtur svona mikillar virðingar er komið inn á það," segir Gunnlaugur.

-En gæti innkoma þess flýtt borunum?

„Það á eftir að koma í ljós. En þetta gerir áætlunina miklu öruggari, það er að segja, þetta félag hefur burði til að framkvæma hvað sem þarf að gera til að framkvæma þessa rannsóknir."

Orkustofnun mun núna kanna nánar fjárhagslega og tæknilega getu umsækjenda til að takast á við olíuleitina og gerir ráð fyrir að ljúka málsmeðferð sinni í haust. Þar sem sótt er um leyfi á svokölluðu samvinnusvæði Íslands og Noregs á Jan Mayen-hryggnum hafa norsk stjórnvöld rétt á að gerast 25 prósent aðilar að leyfinu og verður Noregi því boðin þátttaka áður en leyfið verður gefið út.

China National Offshore Oil Corporation, CNOOC, er talið í 34. sæti yfir stærstu olíufélög heims.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×