Innlent

"Ef þessu yrði beitt hefði það afdrifaríkar afleiðingar"

"Þetta [vopn, innsk. blm.] er notað gegn manninum sem ráðist er inn á, og hann beitur ofbeldi og hann þvingaður til þess að sýna árásarmönnunum hvar vopnin eru geymd,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn.

Fjórir menn sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að ráðist var á eldri mann á heimili hans í Grafarvogi um helgina. Lögreglan hélt blaðamannafund í dag þar sem blaðamönnum gafst kostur á að mynda þau vopn sem fundust í húsleitum.

„Þessi skotvopn eru tekin þaðan og farið með þau í afvikinn stað í Hafnarfirði og komið fyrir hagalega í geymslu inn í innréttingu, komið þannig fyrir að það sé ekki nokkur leið í fljótu bragði að sjá að þarna væru vopn falin ef lögreglan kæmi,“ segir Karl Steinar.

Í kjölfarið fór lögreglan í þrjár húsleitir, þar á meðal í félagsheimili Outlaws, þar sem nokkur vopn til viðbótar finnast.

„Í annari húsleit sem tengist þeim félagsskap, er tæki sem er samblanda af hnúajárni og kaststjörnu. Þetta er flugbeitt, það þarf ekki að spyrja að því ef þessu tæki yrði beitt gegn einstakling að það hefði afdrifaríkar afleiðingar,“ segir Karl Steinar.

Árásin er enn í rannsókn hjá lögreglu en fjórir ungir karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi fram á mánudag vegna þess.

Karl Steinar segir það staðreynd að glæpagengi hér á landi séu frekar að vopnbúast sem megi meðal annars sjá á því mikla magni af vopnum sem lögreglan hefur lagt hald á undanfarin ár. En frá árinu 2007 hefur hún haldlagt 463 skotvopn í 223 málum. Karl Steinar segir þó að glæpagengi séu miklu veikari nú heldur en þau voru fyrir árið 2011 þegar lögreglan hóf harðar aðgerðir gegn þeim.



Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá Karl Steinar fara í gegnum vopnin sem fundust í húsleitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×