Innlent

Fjórðungur lætur brenna sig

Hrund Þórsdóttir skrifar
Fjöldi bálfara hefur tvöfaldast undanfarinn áratug.
Fjöldi bálfara hefur tvöfaldast undanfarinn áratug.

Fjöldi bálfara á Íslandi hefur tvöfaldast undanfarinn áratug og nú lætur um fjórðungur landsmanna brenna sig. Það stefnir í skort á landrými fyrir kistugrafreiti og forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma segir einnig vanta fjármagn til reksturs á líkhúsi.

Hlutfall bálfara af heildartölu látinna hefur aukist mikið frá árinu 1969 en þróunin hefur verið sérstaklega hröð frá aldamótum. Nú láta um 500 manns brenna sig á ári hverju, en um 2000 manns látast hér árlega. Á landsvísu lætur því um fjórðungur brenna sig en á höfuðborgarsvæðinu er hlutfallið enn hærra, eða 39%.

Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, segir bálfarir hagkvæmari en að grafa kistur, meðal annars vegna landnýtingar. Duftker taki sexfalt minna pláss og þegar um duftgarða sé að ræða, sé mögulegt að hafa kirkjugarða inni í borgum. Hann segir skort á landrými fyrir kistugrafreiti stefna í að verða vandamál.

„Gufuneskirkjugarður verður fullsettur í kringum 2020 og þá þurfum við að vera komin vel af stað með nýjan garð,“ segir Þórsteinn.

Líkbrennsluofnarnir í Fossvogi eru þeir einu á landinu. Víðast hvar er notast við gas til að hita upp slíka ofna en hér er notast við rafmagn svo íslensku ofnarnir  eru umhverfisvænir.

Kostnaður er ástæðan fyrir því að aðeins eru brennsluofnar á einum stað á landinu, enda kostar um eða yfir hálfan milljarð að koma upp bálstofu. Hér er þetta ekki vandamál og ofnarnir í Fossvogi sinna öllu landinu. Kostnaður við rekstur líkhússins er hins vegar vandamál og segir Þórsteinn skorta löggjöf um hverjir eigi að annast slíka þjónustu. Líkhúsið sé barn síns tíma og standist ekki nútímakröfur. Árið 2006 skipaði þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til að koma fram með breytingu á lögum um kirkjugarða með sérstöku tilliti til þessara mála.

„Þetta frumvarp hefur verið að velkjast um í kerfinu í sjö ár og vandræðin eru þau að það er ekki til fjármagn til að reka þennan nauðsynlega þjónustuþátt hér á landi. Þetta er með algjörum ólíkindum,“ segir Þórsteinn að lokum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×