Viðskipti innlent

Láta kanna umhverfisáhrifin

Landsvirkjun ætlar að láta gera úttekt á mati á umhverfisáhrifum nýrrar Bjarnarflagsvirkjunar. Þetta kom meðal annars fram á opnum kynningar- og samráðsfundi sem Landsvirkjun boðaði íbúa Skútustaðahrepps í Reykjahlíðarskóla á í gær. Yfir 90 manns sóttu fundinn. Hörður Arnarson, forstjóri og fleiri fulltrúar Landsvirkjunar greindu frá undirbúningi og rannsóknum vegna Bjarnarflagsvirkjunar og mögulegum áhrifum sem tengjast aukinni raforkuframleiðslu á svæðinu. Árni Einarsson frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn kynnti jafnframt að beiðni Landsvirkjunar rannsóknir á lífríki Mývatns og möguleg áhrif Bjarnarflagsvirkjunar.

Stefnt að varfærinni uppbyggingu með 45MW virkjun

Bjarnarflagsvirkjun er í nýtingarflokki í nýsamþykktri rammaáætlun Alþingis um vernd og orkunýtingu landsvæða. Núverandi Bjarnarflagsstöð Landsvirkjunar hefur verið í rekstri frá árinu 1969, eða í yfir 40 ár. Í Bjarnarflagi er ein elsta nýtingarsaga háhitasvæðis á Íslandi og hefur nýting jarðhitavökva á svæðinu um hálfa öld jafngilt 15-45 MW raforkuframleiðslu. Þá byggir rekstur Jarðbaðanna við Mývatn, sem hófu rekstur í núverandi mynd árið 2004, á nýtingu skiljuvatns frá núverandi virkjun.

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningi nýrrar virkjunar í Bjarnarflagi frá árinu 1992 og er útboðshönnun og útboðsgagnagerð fyrir 45 MW virkjun nú á lokastigi.

Ákvörðun um virkjun háð markaðsaðstæðum og mati á umhverfisáhrifum

Stjórn Landsvirkjunar hefur ekki tekið ákvörðun um hvort og hvenær verður sótt um virkjunarleyfi fyrir nýja virkjun í Bjarnarflagi en það verður ekki gert fyrr en orkusölusamningar liggja fyrir og nýrri úttekt á gildandi mati á umhverfisáhrifum er lokið.

Landsvirkjun er í stakk búin að hefja virkjunarframkvæmdir hvort heldur sem er í Bjarnarflagi eða á Þeistareykjum þegar tilskilin leyfi liggja fyrir og samningum um orkusölu vegna iðnaðaruppbyggingu á Bakka við Húsavík verður lokið.

Meira má lesa um málið á vef Landsvirkjunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×