Viðskipti innlent

Heildareignir föllnu bankanna 2.750 milljarðar

Heildareignir föllnu bankanna, Landsbankans, Kaupþings og Glitnis eru bókaðar á 2.750 milljarða króna. Þessi upphæð samsvarar 161% af landsframleiðslu Íslands í fyrra.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki sem birt hefur verið á vefsíðu Seðlabankans. Þar segir að meirihluti eigna föllnu bankanna eru erlendar eignir, en búin eiga einnig verulegar innlendar eignir. Þar vega þyngst kröfur á nýju bankana og eignahlutir í þeim.

Töluverð óvissa er enn um verðmæti bæði innlendra og erlendra eigna föllnu bankanna. Eignir búanna, að teknu tilliti til útgreiðslna, hafa aukist eftir því sem meira hefur verið innheimt af kröfum og eignum verið komið í verð.  Búin geta bókfært virði eigna á mismunandi hátt, því er ekki ljóst að bókfært virði eigna búanna sé fyllilega samanburðarhæft.

Heildareignir eru taldar hafa verið um 2.699 milljarðar kr., auk þess sem búin áttu um 51 milljarð kr. á biðreikningum vegna útgreiðslna á forgangskröfum sem enn eru í ágreiningi. Er það sérgreind eign búanna. Samtals voru eignirnar því bókaðar á 2.750 milljarða kr. eða 161% af landsframleiðslu ársins 2012.

Búin hafa þegar hafið útgreiðslur og hafa alls greitt forgangskröfuhöfum 836 milljarða kr. Heildareignir búanna að viðbættum útgreiðslum voru tæplega 3.600 milljarðar kr. í árslok 2012, um 210% af landsframleiðslu.

Seðlabankinn notar nú kröfuhafaskrár föllnu bankanna til að greina hlutfall innlendra og erlendra krafna í stað efnahagsyfirlita búanna áður. Hlutfall erlendra krafna hefur hækkað frá fyrri greiningum, úr um 87% áður í um 95% nú, sem leiðir til þess að stærri hluti eigna búanna mun koma í hlut erlendra kröfuhafa. Helstu eignir búanna eru kröfur á innlenda aðila í íslenskum krónum, kröfur á innlenda aðila í erlendum gjaldmiðlum, erlendar eignir í erlendum gjaldmiðlum og eignarhlutir í nýju bönkunum

Miðað við núverandi bókfært virði á eignum föllnu viðskiptabankanna og áætluðum útgreiðslum þeirra munu þær valda verulegu greiðslujafnaðarójafnvægi, sem þó má takmarka með samningum. Hefðu búin ekki verið felld undir lög um gjaldeyrismál, 12. mars 2012, þannig að möguleiki sé á að hafa stjórn á útgreiðslum þeirra hefði getað myndast verulegur óstöðugleiki á gjaldeyrismarkaði við útgreiðslurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×