Innlent

Brynjar Níelsson: "Vona að menn fyrirgefi mér hrokann í þetta sinn"

„Ég var svolítið brattur í viðtali á Harmageddon um náttúrvernd og náttúrverndarsinna,“ segir Brynjar Níelsson, verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli á vefsvæði sínu á Pressunni.

Í viðtalinu við Frosta Logason og Þorkel Mána Pétursson, þáttastjórnendur útvarpsþáttarins Harmageddon á X-inu í gærmorgun, sagði Brynjar að náttúruumræðan hér á landi vera komin út í vitleysu og að nokkrir dauðir fiskar í Lagarfljóti væri ekki mikið tiltökumál.

„Öll umræðan hefur verið þannig að virkjanir séu af hinum slæma og þetta sé óafturkrædur náttúruspjöll. Ég er bara ekki að taka undir það,“ sagði Brynjar.

„Ég hefði miklu meiri áhyggjur af einhverskonar mengunarmálum eða einhverju slíku en ekki einhverjum virkjunum - þó að þú breytir ferli ánna, það truflar mig ekki. Þið fáið frábæra á, Jöklu, í staðinn fyrir þennan fúla pytt í Lagarfljóti, ef ég má segja svo, sem hefur alltaf verið gruggugt jökulvatn og fiskurinn kannski aðeins óætari en áður. Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ sagði Brynjar meðal annars í þættinum.

Á bloggsíðu sinni í dag segir Brynjar að þessi ummæli sín hafi verið óþarfi og hann virði skoðanir náttúruverndasinna þótt hann sé ekki sammála þeim.

„Ég þarf að passa mig svo ég verði ekki nýr Björn Valur stjórnmálanna. Vona að menn fyrirgefi mér hrokann í þetta sinn,“ segir Brynjar.

Hlusta má á viðtalið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×