Innlent

Fékk ekki afgreiðslu og hringdi í lögregluna

Boði Logason skrifar
Nóg að gera hjá Stefáni og félögum í kvöld.
Nóg að gera hjá Stefáni og félögum í kvöld. Mynd/lögreglan
„Þetta hefur gengið rosalega vel. Það er einhver reitingur og mér sýnist að þetta sé dæmigert kvöld - enn sem komið er," segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Í kvöld og í nótt ætlar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að taka þátt í svokölluðu tíst-maraþoni. Tæplega 200 lögreglumenn um allan heim munu skrifa færslur á samskiptavefinn Twitter í tólf tíma. Maraþonið byrjaði klukkan sex og lýkur klukkan sex í fyrramálið.

Ef marka má færslurnar hjá lögreglunni í kvöld hefur verið nóg að gera.

Um klukkan hálf sjö var tilkynnt um öskrandi mann úti á svölum í búðarhverfi á höfuðborgarsvæðinu og þá datt maður á höfuðið í miðborginni um svipað leiti. Um klukkan hálf átta var tilkynnt um glannaakstur í íbúðarhverfi, þar sem ökumaður ók upp á gangstéttum og skólalóð. Um klukkan átta var tilkynnt um ungt barn sem fékk yfir sig heitt vatn. Sjúkrabíll og lögregla send á staðinn með forgangi.

Tilkynningarnar í kvöld eru ekki allar alvarlegar því um klukkan hálf níu í kvöld var lögreglu tilkynnt um hávaða frá börnum sem voru að leik á skólalóð hér í borg. Tilkynnanda var gerð grein fyrir því að það væri eðlilegt. Og þá var lögreglu tilkynnt um að einungis einn starfsmaður væri við störf í matvöruverslun og margir væru að versla. Það er ekki lögreglumál.

„Það er alltaf eitthvað um að lögreglunni sé tilkynnt um atriði sem tilheyra ekki okkar verksviði. Í matvöruverslunar-tilkynningunni var tilkynnanda gerð grein fyrir því að það sé ekki lögreglumál þó að það vanti starfsfólk í verslanir. En við reynum að greiða úr öllum innhringingum - við viljum frekar fá fleiri en færri símtöl," segir Stefán.

Stefnan er tekin á að vera á vaktinni til sex í fyrramálið en eins og stendur eru þrír lögreglumenn sem sinna maraþoninu. „Við viljum gefa fólki innsýn bæði inn í kvöldið og nóttina. Það má búast við því að það færist fjör í leikinn eftir því sem líður á kvöldið."

Fylgjast má lögreglunni á Twitter hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×