Innlent

Skóla breytt í vistvæna skrifstofubyggingu

Höfuðstöðvar EFLU verkfræðistofu er fyrsta endurgerða byggingin á Íslandi sem hlýtur BREEAM vottun. BREEAM er alþjóðlega vottun á sjálfbærni bygginga og er samanburðarhæf um allan heim. Byggingin er í eigu Reita fasteignafélags og leigir EFLA húsnæðið.

Höfuðstöðvar EFLU voru áður húsnæði Tækniháskólans, en því var síðan breytt í skrifstofuhúsnæði þar sem sjálfbærni var höfð að leiðarljósi í öllu ferlinu.

„Þegar EFLA stóð frammi fyrir því að flytja saman starfsemi fyrirtækisins undir eitt þak lá það beint við að endurgerðin á húsnæðinu myndi vera gerð í þeim anda að fá sjálfbærnivottun á framkvæmdina" segir Helga Jóhanna Bjarnadóttir sviðsstjóri Umhverfissviðs EFLU.

Bílastæðin fyrir og eftir breytingarnar.Mynd/EFLA
Mikið hefur verið lagt upp úr gæðavottunum hjá EFLU. Sem dæmi er EFLA fyrsta verkfræðistofan sem fékk gæða-, umhverfis- og öryggisvottun samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001.

BREEAM er virt vottunarkerfi um allan heim og samanstendur af níu flokkum; heilsu og vellíðan, umhverfis- öryggis- og gæðastjórnun, orku, samgöngum, vatni, byggingarefnum, mengun, úrgangi og landnotkun og vistfræði lóðar. Það getur verið flókið verkefni að ná háu skori í endurgerð bygginga þar sem ýmsir þættir eru þegar fastir. EFLA verkfræðistofa og Reitir telja að afar vel hafi tekist til í þessu verki sem fékk einkunnina „Very Good+" í vottunarferlinu.

Nánar á heimasíðu EFLU.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×