Innlent

Gæti brotið í bága við persónufrelsi

Boði Logason skrifar
Þórður Sveinsson
Þórður Sveinsson
„Öll rafræn vöktun getur brotið í bága við persónufrelsi" segir Þórður Sveinsson, staðgengill forstjóra Persónuverndar. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir að fyrirhugað sé að setja upp öryggismyndavélar í alla strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.

Það sé gert vegna þess að ofbeldi beinist að vagnstjórum og farþegum í vaxandi mæli. „Það hefur komið upp að vagnstjórar hafa orðið fyrir árás, allt frá því að kastað er yfir þá hveiti yfir í að þeim sé ógnað með vopni," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs, í samtali við Fréttablaðið.

Þórður segir að meta þurfi hvort að það sé málefnalegt að setja upp öryggismyndavélar í almenningssamgöngur hér á landi og nauðsynlegt sé að gæta meðalhófs.

Hann bendir á að árið 2005 hafi Persónuvernd í Osló í Noregi ekki fallist á að settar yrðu upp öryggismyndavélar í strætisvagna þar í borg. En úrskurðurinn hafi verið kærður til sérstakrar kærunefndar sem komst að annarri niðurstöðu árið 2006 - það var því leyft að setja upp myndavélarnar.

„Ég hef ekki lesið úrskurðinn, en það má gera ráð fyrir því að kærunefndin hafi tekið tillit til almenningshagsmuna og sett einhver skilyrði. Það er mikilvægt að finna jafnvægi í þessu."

Persónuvernd hér á landi hefur ekki borist kvörtun vegna málsins en heimild er í lögum stofnunarinnar að taka sjálf upp mál. „Við erum ekkert búin að fjalla um þetta, að minnsta kosti ekki enn sem komið er," segir hann.

Athugasemd klukkan 13:00

Strætó bs. vill koma því á framfæri að aldrei hafi verið ákveðið né fyrirhugað að setja upp öryggismyndavélar í strætó. Það hefði einungis verið skoðað en ekkert ákveðið í þeim efnum, meðal annars vegna þess að það þyrfti að huga að persónuverndarsjónarmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×