Innlent

Mánaðarlangt fangelsi fyrir að skila ekki bifhjóli til Íslandsbanka

Karlmaður var dæmdur í eins mánaðar óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag en hann ákærður fyrir fjárdrátt og nytjastuld með því að hafa dregið að sér bifhjól af gerðinni Suzuki Boulevard C50, árgerð 2007. Verðmæti hjólsins voru 790 þúsund krónur en maðurinn var með hjólið á kaupleigusamning hjá Íslandsbanka, en samningurinn var gerður árið 2008.

Maðurinn neitaði að skila hjólinu eftir að hann hætti að greiða af því en árið 2011 samþykkti Héraðsdómur Reykjaness innsetningarbeiðni í hjólið. Þrátt fyrir það komst bankinn ekki yfir hjólið en sjálfur hélt maðurinn því fram að hann hefði bent starfsmanni Íslandsbanka á það hvar hjólið væri, en enginn virðist kannast við það.

Dómari hérðasdóms lítur svo á að maðurinn sé sekur um þau ákæruatriði sem honum voru gefin að sök og framburður hans var metin afar ótrúverðugur. Maðurinn hefur tvívegis áður komist í kast við lögin, meðal annars vegna eignaspjalla. Ekki þótti ástæða til þess að skilorðsbinda dóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×