Innlent

Ætlaði að smygla þremur kílóum af amfetamíni til landsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Spænskur karlmaður á fertugsaldri er grunaður um tilraun til stórfellds smygls á amfetamíni til landsins á dögunum.

Maðurinn kom með flugi hingað til lands frá París í lok síðasta mánaðar. Tollgæsla stöðvaði hann í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að hann hefði eitthvað óhreint í pokahorninu. Við leit í ferðatösku hans fundust falin tæp þrjú kíló af amfetamíni.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins en maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn og verið yfirheyrður.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er þetta ekki í fyrsta skipti sem umræddur maður hefur komið við sögu lögreglu því hann hefur hlotið refsidóm í öðru landi fyrir samskonar verknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×