Innlent

Sorpbrennslu hætt á Húsavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sorpbrennslu var hætt á Kirkjubæjarklaustri í lok síðasta árs.
Sorpbrennslu var hætt á Kirkjubæjarklaustri í lok síðasta árs.
„Okkur þykir þetta auðvitað afsaplega leitt. En það er ódýrara að grafa holu og setja ofan í en að gera það með þessum hætti," segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Norðurþingi um endalok sorpbrennslu hjá Sorpsamlagi Þingeyinga á Húsavík.

Sorpbrennslu fyrir norðan verður hætt þann 27. mars. Reksturinn hefur verið erfiður en dýrar en nauðsynlegar endurbætur á tækjabúnaði verða ekki umflúnar, segir í tilkynningu frá Sorpsamlaginu. Því miður hafi hvorki tekist að tryggja fjármagn til endurbóta né rekstrargrundvöll brennslunar.

„Þess utan hafa menn fengið heimild til þess að urða úrgang og annað sem ekki var áður. Það hefur auðvitað áhrif á tekjur af þessari brennslu," segir Bergur Elías í samtali við Vísi. Hann segir niðurstöðuna leiðinlega en gripið verði til þeirra aðgerða sem þurfi.

Eftir að sorpbrennslunni verður lokað hinn 27. mars næstkomandi verður sorpi safnað ýmist í móttökustöð á Húsavík eða flokkunarstöð Gámaþjónustu Norðurlands á Akureyri, sett í flutningsgáma og ekið til urðunar í Stekkjarvík, urðunarstað Norðurár bs. nálægt Blönduósi.  

Ljóst sé að flutningur sorps og endurvinnsluefna eftir þjóðvegum landins muni aukast töluvert með tilheyrandi mengun og sliti á vegum.  

Þegar sorpbrennslu lýkur verður ekki mögulegt að taka á móti tilteknum úrgangsflokkum til eyðingar, svo sem áhættuvef frá sláturhúsum, sýktum dýrahræjum eða sóttmenguðum úrgangi frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum.

Spilliefnum verður hins vegar safnað áfram í móttökustöð á Húsavík og gámaplönum til sveita og komið í viðeigandi farveg, meðal annars í brennslu á Suðurnesjum eða flutt utan til frekari meðhöndlunar eða eyðingar. Stjórn og eigendur Sorpsamlags Þingeyinga undrast það tómlæti sem yfirvöld hafa sýnt rekstrarumhverfi sorpbrennslna sem starfað hafa samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum, því viðurkennt er að sorpbrennsla er nauðsynlegur þáttur í úrgangsstjórnun, ekki síst við neyðaraðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×