Innlent

Formenn þingflokka reyna að komast að samkomulagi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ekkert samkomulag liggur fyrir á Alþingi um að ljúka þingstörfum en samkvæmt starfsáætlun átti þingi að ljúka í gær. Þingflokksformenn ætla funda í dag en mikill ágreiningur ríkir um afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarps formanna stjórnarflokkana og Bjartrar framtíðar.

Þingfundur hófst á Alþingi klukkan tíu í morgun. Ellefu mál eru á dagskrá þar á meðal frumvarp menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, frumvarp fjármálaráðherra um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og frumvarp umhverfisráðherra um náttúruvernd.

Samkvæmt upphaflegri starfsáætlun átti þingstörfum að ljúka í gær. Illa hefur hins vegar gengið að ná samkomulagi um afgreiðslu mála og bendir allt til þess að þingstörfum verði framhaldið í næstu viku.

Stjórnarflokkarnir leggja meðal annars áherslu á að klára frumvarp um náttúruvernd, frumvarp um byggingu nýs Landspítala og stjórnarskrárfrumvarp formanna ríkisstjórnarflokkanna og bjartrar framtíðar. Málið er afar umdeilt og hefur Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar lagt fram breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að stjórnarskrárfrumvarpið sem byggir á tillögu stjórnlagaráðs verði samþykkt í heild.

Formenn þingflokkanna hittust í morgun til að ná sátt og áfram verður fundað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×