Innlent

Íslendingar einstaklega jákvæðir í garð ferðamanna - þurfum samt að halda í gestrisnina

Íslendingar eru jákvæðastir allra þjóða í garð erlendra ferðamanna sem þykir landið öruggur staður. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins.

Ísland er ásamt Nýja Sjálandi efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir lönd sem taka best á móti ferðamönnum. Bæði löndin fá nánast fullt húsa stiga, 6,8 af sjö mögulegum, þar sem einn þýðir að ferðamönnum finnist þeir mjög óvelkomnir og sjö mjög velkomnir. Bólivía situr á botni þessarar úttektar og viðmót heimamanna í Venezúela, Rússlandi og Kúveit eru á svipuðu róli.

„Þeir sem eru að selja hingað ferðir þeir skoða svona skýrslur og þeir sjá það bæði að við tökum vel á móti gestum og það kemur líka fram í skýrslunni að þetta er mjög öruggur staður að vera á," segir Jón Ásbergsson, Framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Jón óttast að mikil fjölgun ferðamanna hér á landi eigi eftir að hafa áhrif á gestrisni Íslendinga en hann hvetur landsmenn til að halda í hana.

„Við getum gert það með því að vera við sjálf eins og við erum og vera ekki að láta smáatriði fara í taugarnar á okkur. Eins og eins og einhver þingmaður segir, að hann hafi ekki getað fengið borð til að drekka latte kaffi í miðbæ Reykjavíkur. Vera ekki að láta svona smáatriði fara fyrir brjóstið á sér," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×