Innlent

Gekk yfir Austurvöll og fótbrotnaði

Það var rétt fyrir klukkan eitt í nótt sem kona var á gangi á Austurvelli. Konan missteig sig og ekki fór betur en svo að hún fótbrotnaði. Sjúkrabíll var kallaður á staðinn og var hún flutt á spítala til aðhlynningar.

Þá tilkynnti starfsmaður veitingahúss í miðbænum um mann sem hafði fallið ölvaður í götuna og líklega rotast við fallið. Hann var einnig fluttur á slysadeild.

Þá hafði lögregla afskipti af manni á veitingahúsi í Kópavogi sem var töluvert ölvaður og fór ekki að fyrirmælum lögreglu.

Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu. Þá voru tveir til viðbótar handteknir þar í bæ grunaðir um að hafa unnið skemmdir á bílum.

Þeir voru ölvaðir og vistaðir í fangageymslu. Nú í morgun handtók lögregla mann í porti lögreglustöðvar við Hverfisgötu. Sá var í annarlegu ástandi fór ekki að fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa portið.

Lögreglan í Borgarnesi stöðvaði svo ökumann í nótt en sá er grunaður um ölvunarakstur. Maðurinn hafði lent í átökum í sumarbústað og gengið berkserksgang þar en að því loknu rauk hann út í reiði sinni og ók af stað út í myrkrið.

Þá var mikið um hávaðaútköll vegna veisluhalds í heimahúsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×