Innlent

Vilja auka framlög til löggæslu um þrjá og hálfan milljarð

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þverpólitísk þingmannanefnd leggur til að fjárframlög til löggæslu verði aukin um þrjá og hálfan milljarð á næstu fjórum árum til að hægt sé að fjölga lögreglumönnum og kaupa nýjan búnað. Nefndin telur að staða löggæslumála sé grafalvarleg vegna manneklu og niðurskurðar á undanförnum árum.

Nefndin tók til starfa í nóvember á síðasta ári í henni sátu fulltrúar allra flokka á Alþingi auk fulltrúa frá Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytinu. Nefndin skilaði skýrslu til innanríkisráðherra í síðustu viku.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að stórefla þurfi lögregluna og hækka þurfi framlög til hennar um þrjá og hálfan milljarð á næstu fjórum árum, umfram verðlagshækkanir fjárlaga. Einnig þurfi að fjölga lögreglumönnum um 236 eða um tæplega fjórðung miðað við núverandi fjölda.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir ennfremur að staða löggæslumála á Íslandi sé grafalvarleg. Forgangsatriði sé að fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og nauðsynlegt sé að bæta búnað og þjálfun. Þá þurfi að styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar og efla lögregluna á landsbyggðinni.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir mikilvægt að þarna hafi skapast þverpólitískur vilji til að endurreisa löggæsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×