Innlent

Segir rangt að það sé óánægja innan þingflokksins

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar segir í bloggi sínu á vefsvæði Pressunnar að nú sé hart spunnið um ágreining innan Samfylkingarinnar um stjórnarskrármálið og aðkomu Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

RÚV greindi frá því í hádeginu að óánægja ríkti innan þingflokks Samfylkingarinnar vegna frumvarps sem Árni Páll ásamt formönnum Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna lögðu fram fyrir um tíu dögum síðan.

Þessi óánægja á meðal annars hafa endurspeglast í því að Valgerður Bjarnadóttir, formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og Lúðvík Geirsson, nefndarmaður í nefndinni, hafi látið kalla inn varamenn í nefndina í stað þess að samþykkja frumvarpið sjálf út úr nefndinni.

Lúðvík sagði í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi ekki viljað koma að þessari vinnu vegna þess að hann var þegar búinn að taka sambærilegt mál úr nefndinni og vísar þar í fyrstu tillögu stjórnlagaráðs. Valgerður vildi ekki tjá sig um málið.

Í bloggfærslu Björgvins segir hann að Árni Páll hafi einfaldlega sagt þjóðinni óþægilegan sannleik, að við blasti að ekki væri unnt að klára stjórnarskrármálið fyrir þinglok, því væri best að tryggja endurskoðun héldi áfram eftir kosningar.

Björgvin bætir við að Árni Páll sitji nú undir „svikabrigslum og spuna um óánægju með framgöngu hans innans þingflokks Samfylkingarinnar og við málið í heild sinni." Björgvin skrifar svo einfaldlega um óánægjuna: „Þetta er rangt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×