Innlent

Dönsuðu Harlem Shake til að tryggja vopnaviðskiptasamning

Ungliðahreyfingin í Amnesty á Íslandi tóku sig til og hristu sig að hætti Harlem-búa í gærdag fyrir utan Hallgrímskirkju.

Þannig vildu þau vekja athygli á nauðsyn þess að alþjóðlegur vopnaviðskiptasamningur nái fram að ganga. Ungliðar deildarinnar safna jafnframt undirskriftum til að þrýsta á Obama forseta Bandaríkjanna að tryggja öflugan vopnaviðskiptasamning á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fer dagana 18. til 23. mars næstkomandi.

Í tilkynningu frá Amnesty segir að af fastaríkjunum fimm í Öryggisráðinu (Frakkland, Bretland, Kína, Rússland og Bandaríkin), flytja Bandaríkin langmest út af vopnum.

Bandaríkin hafa því sérstöku ábyrgðarhlutverki að gegna í að tryggja að öflugur vopnaviðskiptasamningur nái fram að ganga sem tryggir raunverulega mannréttindavernd. Fastaríkin fimm framleiða samtals 80% allra vopna sem flutt eru út og þessi vopn eru iðulega notuð til brjóta gróflega gegn mannréttindum fólks.

Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×