Innlent

Óvissa um afdrif stjórnarskrárfrumvarpsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Mikil óvissa ríkir um afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarps formanna stjórnarflokkanna og bjartrar framtíðar. Svo gæti farið að engar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni fyrir kosningar.

Árni Páll Árnason, formaður samfylkingarinnar, lagði fram sáttatillögu í stjórnarskrármálinu í gær. Illa hefur gengið að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins enda er staðan flókin og málið umdeilt, bæði innan stjórnarflokkana og á milli stjórnar og stjórnarandstöðu:

Stjórnarflokkarnir, samfylking og vinstri grænir, vilja afgreiða frumvarp um breytingar á breytingarákvæði og koma auðlindarákvæðinu inn í stjórnarskrá.

Framsóknarmenn telja óráðlegt að breyta breytingarákvæðinu en vilja hins vegar ræða auðlindarákvæðið. Stjórnarflokkarnir hafa hins vegar hafnað hugmyndum framsóknarmanna hvað það varðar.

Sjálfstæðismenn telja að málið í heild sé fallið á tíma. Þeir eru þó tilbúnir að ræða mögulegar breytingar á breytingarákvæði en vilja stíga varlega til jarðar þegar kemur að auðlindarákvæðinu.

Þingmenn Bjartrar framtíðar leggja áherslu á að breytingarákvæðinu verði breytt.

Þingmenn Hreyfingarinnar vilja hins vegar afgreiða stóra stjórnarskrárfrumvarpið og leggjast gegn öðrum hugmyndum.

Málið er því í algjörum hnút og viðbúið að það endi í málþófi verði það sett á dagskrá án þess að búið sé að semja um afgreiðslu þess. Tíminn vinnur með stjórnarandstöðunni enda aðeins sex vikur til kosninga.

Stjórnarliðar sem fréttastofa talaði við í dag óttast að þetta gæti eyðilagt önnur stór mál sem einnig bíða afgreiðslu.

Óánægja er meðal þingmanna samfylkingarinnar með framgöngu Árna Páls í málinu. Fulltrúar flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, Valgerður Bjarnadóttir og Lúðvík Geirsson, tóku ekki þátt í því að afgreiða sáttafrumvarpið úr nefnd og kölluðu inn varamenn.

Algjör óvissa ríkir því um framhald málsins. Svo gæti farið að engar breytingar verði gerðar á stjórnarskránni fyrir kosningar sem væri mikill ósigur fyrir stjórnarflokkana.

Formenn flokkanna hafa fundað óformlega um málið í dag en engin niðurstaða liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×