Innlent

Gotti fór bara á djammið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gotti uppi á ostinum á góðviðrisdegi í sundlauginni á Selfossi.
Gotti uppi á ostinum á góðviðrisdegi í sundlauginni á Selfossi. Mynd/Heimasíða Árborgar
Ostastrákurinn Gotti, sem fjarlægður var af stalli sínum í Sundhöll Selfoss síðastliðinn mánudag, fannst í heilu lagi í íbúðarhverfi á Selfossi í gærkvöldi.

Fréttavefur Sunnlendinga greinir frá þessu en Gotti virðist hafa skellt sér út á lífið um helgina enda uppáklæddur í svarta skyrtu, með sólgleraugu og glæsilegan stráhatt. Þá var hann með einn kaldan í hendi sinni. Mynd af Gotta í nýju fötunum má sjá á Sunnlenska.is.

Í bréfi, sem fest var við ostastrákinn, biðst Gotti afsökunar á því að hafa strokið að heiman.

„Ég var kominn með hundleið á því að standa þarna eins og illa gerður hlutur í fleiri ár þannig ég ákvað að fara aðeins að lyfta mér upp, en þið vitið það að þegar ég fer á djammið þá kem ég alltaf heim aftur," segir meðal annars í bréfinu.

Þá spyr Gotti í lok bréfsins hvort ekki sé möguleiki á að fá kvenmann til að standa vaktina í sundlauginni við hlið sér. Einmanalegt sé á toppi ostsins.

Garðálfurinn vill vafalaust komast aftur í garðinn sinn.Mynd/Árborg.is
Myndir náðust af tveimur einstaklingum fjarlægja Gotta á mánudagskvöldið að því er fram kemur á heimasíðu sveitarfélagsins Árborgar. Enn liggur ekki fyrir hverjir voru þar að verki en lítill garðálfur var settur í stað Gotta á topp ostsins.

Eigandi garðálfsins getur nálgast hann á lögreglustöðinni á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×