Innlent

"Bara þetta venjulega íslenska leiðindaveður“

„Þetta er bara þetta venjulega íslenska leiðindaveður," segir Einar Þór Strand, formaður Björgunarsveitarinnar Berserkir á Stykkishólmi. „Það var bara kominn tími á þetta."

Ekkert ferðaveður er á norðan- og vestanverðu landinu. Á Vesturlandi er hálka víða og sumstaðar él eða skafrenningur.

Þrátt fyrir að veður sé slæmt hafa björgunarsveitir og lögregla á Stykkishólmi ekki þurft að sinna mörgum útköllum það sem af er degi. Í nótt voru Berserkir kallaðir til þegar flotbryggja losnaði að hluta til. Nokkrir bátar voru tjóðraðir við bryggjuna.

„Þetta var á þriðja tímanum í nótt," segir Einar Þór. „Við náðum í þá sem áttu þessa báta og fengum þá til að færa þá."

Einar Þór bendir á að lítil hætta hafi myndast þegar bryggjan losnaði.

„Bryggjan er að hluta til föst en hún veldur litlu tjóni núna. Það er einn bátur enn tjóðraður við hana en við náum í hann þegar veðrið gengur niður. Við náðum að losa stóru bátana í nótt svo hættan er lítil."

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Stykkishólmi hafa útköll verið fá. „Í raun frekar rólegt miðað við veður," sagði varðstjóri í samtali við Vísi.

Veðurstofa varar við slæmu ferðaveðri á Vestfjörðum. Ófært er um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Klettshálsi. Hálka og skafrenningur er á Mikladal og Hálfdán, hið sama má segja um Kleifaheiði og þungfært er í Ísafjarðardjúpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×