Innlent

Síminn rukkar líka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Í nýlegri úttekt Póst- og fjarskiptastofnunar á álagningu íslenskra fjarskiptafyrirtækja kom fram að Síminn, eitt fyrirtækja, rukkaði ekki fyrir símtöl í Já.is. Það er þó ekki alveg rétt.

Fjallað var um úttektina hér á Vísi á mánudag og sagt að álagning Símans væri engin og raunar væri 85 prósenta munur á álagningu hjá Tal, sem leggur mest á símtöl í 118, og Símans.

Í svari Símans við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að álagning Símans sé sú sama hvort sem hringt sé í 118 eða annað. Fyrirtækið bjóði viðskiptavinum sínum 300-1500 mínútur innifaldar gegn misháu mánaðargjaldi.

Á meðan viðskiptavinir séu innan mínútumarkanna greiði þeir aðeins þjónustugjöld Já, þ.e. 150 krónur. Tali þeir umfram markanna verði álagningin í mesta lagi 27 krónur. Heildarverðið verði þá 177 krónur. Í því tilfelli er verð Alterna lægst eða 170 krónur.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir í samtali við Vísi að samantektin sé til skoðunar. Ábendingar hafi borist varðandi samantektina en niðurstaða liggi líkast til ekki fyrir fyrr en eftir helgi.

Aðspurður hvort úttektin sé ekki röng svarar hann úttektina unna upp úr þeim upplýsingum sem liggi fyrir á heimasíðum fjarskiptafyrirtækjanna.

Hér fyrir neðan má sjá frétt Vísis frá því á mánudaginn.


Tengdar fréttir

85% verðmunur á símtölum í 118

Rúmlega 85 prósenta verðmunur er á því að hringja í 118 eftir því hjá hvaða símafyrirtæki viðkomandi er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×