Innlent

Logaland kærir innkaupadeild Landspítalans til Samkeppniseftirlitsins

Fyrirtækið Logaland hefur kært innkaupadeild Landspítalans til Samkeppniseftirlitsins vegna vinnubragða í innkaupum á heilbrigðisvörum og –tækjum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að deildin annist innkaup og útboð fyrir Landspítalann á heilbrigðisvörum, en áætlað er að meirihlutinn af um 9 milljarða árlegri veltu á þeim markaði fari í gegnum innkaupadeildina.

Logaland ehf telur að vinnubrögð innkaupadeildar standist að mörgu leyti hvorki ákvæði samkeppnislaga né ákvæði laga um opinber innkaup og skerði því samkeppni með alvarlegum hætti.

Björn Líndal, lögmaður Logalands, lagði inn kæru þar sem meðal annars segir: „...þessi skerðing á samkeppni varðar ekki einungis viðskiptahagsmuni Logalands heldur hefur víðtækari skaðleg áhrif á samkeppni á markaði með lækningatæki, hjúkrunarvörur og hjúkrunartæki, rannsóknarvörur og rannsóknartæki."

Svo segir í tilkynningunni: „Síðustu ár höfum við neyðst til að leita til kærunefndar útboðsmála vegna vinnubragða innkaupadeildar sem ekki standast kröfur laga um opinber innkaup" , segir Ingibergur Erlingsson, hjá Logalandi ehf. „Þrátt fyrir að kærunefnd útboðsmála hafi margoft fellt úrskurði gegn deildinni, þá virðast vinnubrögðin ekki breytast. Þvert á móti þá virðast viðbrögðin hafa verið þau að refsa Logalandi fyrir að fara kæruleiðina."

Innkaupadeild Landspítalans hefur ítrekað brotið lög um innkaup opinberra aðila á síðustu árum og þurft að falla frá samningum eða endurtaka stór útboð þess vegna. Nýlega féll úrskurður þar sem stöðvuð eru kaup á tækjum til nýrrar kjarnarannsóknarstofu fyrir meira en sex hundruð milljónr og lagt fyrir Ríkiskaup að auglýsa innkaupin að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×