Innlent

Reykjavíkurborg endurgreiðir súludansnámskeið fyrir börn - Formaður ÍTR með efasemdir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs setur spurningamerki við að Reykjavíkurborg niðurgreiði námskeið í súluleikfimi fyrir börn og unglinga. Á fundi ráðsins í gærmorgun var samþykkt að leggjast í endurskoðun á reglum um frístundakortið.

Heilsuræktarstöðin Pole Sport sem gerir út á líkamshreyfingu við súlu auglýsir nú ný námskeið sem sérstaklega eru ætluð börnum og unglingum á aldrinum tólf til fimmtán ára. Pole Sport er aðili að frístundakorti ÍTR og eru námskeiðin því niðurgreidd af Reykjavíkurborg.

„Ég verð að segja að mér var sjálfri pínu brugðið," segir Eva Einarsdóttir og bendir á að hún hafi ekki haft vitneskju um að slíkt námskeið væri niðurgreitt hjá Reykjavíkurborg.

Forsvarsmenn þeirra stöðva sem bjóða upp á líkamsrækt við súlu sverja af sér allar tengingar við klámiðnaðinn og súludans sem fram fer á nektarstöðum. Sú tenging er hins vegar til staðar í hugum margra. Þannig veltir Eva því upp hvort niðurgreiðsla á súluleikfimi barna og unglinga samræmist mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir að borgin skuli vinna gegn klámvæðingu.

„Auðvitað get ég skilið þau sjónarmið að þetta sé erfið íþrótt. Engu að síður set ég persónulega spurningamerki við þetta, þetta er á gráu svæði," segir hún. Ljóst þykir að fleiri mál gætu komið upp sem þættu á gráu svæði. „Þess vegna settum við í dag fram tillögu á fundi Íþrótta- og tómstundaráðs um að hópur færi af stað í samvinnu við borgarlögmann til að skoða, og jafnvel þrengja inntökuskilyrði, og kannski bæta inn ákvæðum um að við höfum vald til að neita félagasamtökum þó að þau uppfylli þau skilyrði sem eru núna sett fram í reglum um frístundakortið," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×