Innlent

Steingrímur leit yfir farinn veg - "Við hikuðum ekki þegar skyldan kallaði“

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Áttundi landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs var settur á Hótel Hilton fyrir stundu. Steingrímur J. Sigfússon sagði í opnunarræðu sinni engann flokk hafa skipt meiri sköpum fyrir stjórnmálaþróun í landinu síðastliðinn fimmtán ár og Vinstri græna. Steingrímur lætur af formennsku á fundinum og leit yfir farinn veg í ræðu sinni.

Steingrímur sagðir Vinstri græna hafa endurnýjað inntak stjórnmálanna og skipt sköpum um valdahlutföllin í landinu síðastliðin ár. Vinstri grænir hafi skrifað marga og merka kafla í íslenskri stjórnmálasögu þrátt fyrir að vera ung að árum. Steingrímur sagði viðamesta, sögulegasta og sumpartin erfiðasta kaflann í sögu flokksins hafa hafist með þeirri ákvörðun að mynda nýja og starfhæfa ríkisstjórn í lok janúar 2009.

„Viðamesti, sögulegasti og sumpart erfiðasti, kaflinn hófst með ákvörðun okkar um að mynda landinu nýja og starfhæfa ríkisstjórn, sem þá var ekki lengur til staðar þegar mest þurfti við, í lok janúar 2009," sagði Steingrímur í ávarpi sínu í dag. „Við hikuðum ekki þegar skyldan kallaði, þegar hagsmunir Íslands á barmi gjaldþrots og upplausnar, minntu á að það fylgir því ábyrgð og það fylgja því skyldur að vera í stjórnmálum. Enn meiri kaflaskil urðu með kosningunum undir lok apríl sama ár, þegar annar stórsigur okkar í röð í kosningum með tveggja ára millibili gerði mögulega myndun fyrstu hreinu vinstristjórnar lýðveldissögunnar."

Hrunið var Steingrími tíðrætt og sagði hann núverandi ríkisstjórn hafa náð að koma á jöfnuði, þar vegi þyngst þær skattkerfisbreytingar sem núverandi ríkisstjórn réðst í. Þar sem þeim tekjuminni var hlíft og þeir tekjuhærri látnir taka á sig meiri byrðar.

Steingrímur hefur verið formaður Vinstri grænna frá því flokkurinn var stofnaður árið 1999. Hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu og verður ný formaður því kosinn á landsfundinum um helgina. Katrín Jakobsdóttir hefur ein tilkynnt framboð til formanns.

„Á morgun veljum við nýja forustu til að leiða hreyfinguna á vit framtíðarinnar, framtíðar þar sem Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna," sagði Steingrímur.

„Við skulum standa þétt saman og sýna hvað í okkur býr. Kæru félagar. Þakka ykkur fyrir, lifiði heil, lifi Vinstrihreyfingin grænt framboð!"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×